138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í þingsköpum Alþingis hafa ríkt ákveðnar hefðir og venjur. Þeim hefðum og venjum höfum við stundum rætt um að við vildum breyta en væntanlega verða þær breytingar ekki á sama formi og síðustu ummæli sem fallið hafa um tengsl þingmanna, greiðslur og annað í þeim dúr.

Virðulegi forseti. Í pólitík greinir menn á. Menn hafa ólíka hugmyndafræði, menn greinir á um leiðir í átt að markmiðum en ég bið hæstv. forseta og þingmenn alla að reyna að koma sér upp úr því að ráðast að fólki prívat og persónulega. Þrátt fyrir það að hugmyndafræði okkar sé ólík þá erum við ekki hér á þeim forsendum. Árásir á einstaklinga í þessum þingsal, þá sem hér eru eða aðra, eru algerlega óásættanlegar.