138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:55]
Horfa

Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti vill vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram nú sem endranær beina því til þingmanna að gæta orða sinna, sýna hver öðrum virðingu og muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Forseti túlkaði orð hv. þm. Björns Vals Gíslasonar þannig að hann hefði borið fram fyrirspurn og að í þeim orðum hefði ekki falist fullyrðing af því tagi sem hér hefur verið rætt um og að þingmaðurinn hafi beðist afsökunar á orðum sínum. Forseti minnir líka á að oft hafa fallið þung orð í umræðum á hinu háa Alþingi og mikilvægt að við leggjum okkur öll fram um að gæta virðingar þingsins í hvívetna.

Þá heimild sem forseti hefur til að víta þingmenn fyrir ummæli sín ber að mati þess forseta sem nú stýrir fundi að fara varlega með og forseti þarf að vera fullviss í sinni sök um að ummælin séu þess eðlis og af þeim toga að til þess úrræðis sé gripið. Forseti vonast til þess að þessari umræðu sé nú lokið og hægt verði að halda áfram með dagskrá fundarins.