138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[13:09]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni mikilvæg réttarbót og hér er stór dagur í réttindabaráttu samkynhneigðra að renna upp. Meiri hlutinn telur að með því að samþykkja breytingartillögur minni hlutans verði ekki afmáður sá lagalegi munur sem felst í mismunandi löggjöf sem nú gildir. Þannig verði þeim mismun sem er í gildandi lögum í reynd viðhaldið. Þær breytingar sem gerðar hafa verið til að bæta réttarstöðu samkynhneigðra allt frá setningu laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, hafa gegnt mikilvægu hlutverki í því að breyta gildismati þjóðarinnar gagnvart samkynhneigð. Meiri hlutinn telur því að frumvarpið sé eðlilegt næsta skref í þeirri vegferð að jafna stöðu sambúðarforma einstaklinga og að framsetning frumvarpsins með vísun til hjúskapar tveggja einstaklinga sé einföld og skýr.

Þá er einnig í frumvarpinu heimild til handa vígslumönnum að neita að gefa saman pör sé það ekki í samræmi við þeirra trúartúlkun.

Þetta frumvarp þarf því að samþykkja óbreytt. Það er eins og það er.