138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[13:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í minni hluta allsherjarnefndar höfum lagt fram nefndarálit þar sem afstaða okkar til efnis frumvarpsins kemur skýrt fram. Í því kemur fram að við teljum að það sé rétt að koma með nokkrum hætti til móts við gagnrýnisraddir sem fram hafa komið á frumvarpið með því að gera ákveðna breytingu á 1. gr. frumvarpsins sem felur í sér að í stað þess að nota orðið „einstaklingur“ sé sagt karls og konu, karls og karls og konu og konu þegar vísað er til hjúskapar einstaklinga. Þannig tiltökum við þá möguleika sem fyrir hendi eru. Tel ég að með því móti sé ekki verið að mismuna einum eða neinum. Hins vegar styðjum við þá meginbreytingu frumvarpsins að með orðunum „hjúskap“ og „hjón“ sé vísað til beggja sambúðarformanna, bæði milli samkynhneigðra og gagnkynhneigðra.

Varðandi síðara atriðið (Forseti hringir.) sem er í breytingartillögu okkar verð ég að gera nánari grein fyrir því í atkvæðagreiðslu um breytingartillöguna. (Forseti hringir.)