138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[13:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vísa til skýringar formanns nefndarinnar sem útskýrði það áðan að það er ekki þannig að einhver sé þvingaður til eða neyddur til að framkvæma athöfn sem stríðir gegn sannfæringu viðkomandi eða trúarsannfæringu en hins vegar er lögð skylda á borgaralega vígslumenn eða embættismenn að framkvæma vígslur af því tagi. Ég tel því enga ástæðu til að gera breytingu á efni frumvarpsins og tel að það eigi að standa eins og það er og fella þessa breytingartillögu.

Ég vil hins vegar láta það sjónarmið mitt koma fram að ég er þeirrar skoðunar að á skráð trúfélög eða viðurkennd trúfélög sem njóta lögverndaðrar innheimtu tekna og annað í þeim dúr eigi að leggja þær kvaðir að þau skuli sjá til þess að slíkar athafnir sé hægt að framkvæma innan þeirra vébanda, þannig að víki einhver einstaklingur sér undan því á þeirra vegum skuli annar koma í staðinn og það eigi að vera hluti af þeim skyldum sem skráð trúfélög (Forseti hringir.) bera, ef þau eiga að fá fullnægjandi viðurkenningu stjórnvalda, því að (Forseti hringir.) annars brjóta þau mannréttindi á meðlimum sínum.