138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[13:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Tilefni þessa máls er auðvitað það að umhverfisráðherra og umhverfisráðherrum hefur gengið afar illa að halda sig innan þeirra tímafresta sem lög um mat á umhverfisáhrifum kveða á um. Ósk ráðuneytisins var sú að það mundi leiða til þess að frestir yrðu lengdir. Eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson greindi hér frá samþykktum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni það með nokkrum semingi vegna þess að það hefur kannski ekki farið fram næg skoðun á því hvort unnt sé að flýta ferlinu með öðrum hætti. Við samþykktum þetta með því að það væri þá tryggt að fyrir frestun á afgreiðslu væru einhver málefnaleg rök sem ráðherra gæti útskýrt fyrir þeim aðilum sem bíða eftir niðurstöðu í máli. Þess vegna setjum við fram og nefndin í heild (Forseti hringir.) skýra kröfu um rökstuðning fyrir ákvörðun um að taka lengri frest en (Forseti hringir.) lögin kveða á um.