138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[13:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég skrifa einnig undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Nefndin fjallaði mikið um mikilvægi þess að gætt sé að grundvallarreglum stjórnsýsluréttar, að ákvarðanir í málum er lúta að stjórnsýslunni skuli teknar svo fljótt sem verða má og er þar vísað í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þess vegna varð samkomulag í nefndinni, eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd hafa farið hér yfir, að verði lengri frestur en þrír mánuðir verði það rökstutt og ástæða tafanna upplýst fyrir þeim sem í hlut eiga. Á þeim forsendum er ég með á þessu máli vegna þess að það hefur gengið mjög erfiðlega í umhverfisráðuneytinu að standa við fresti. Nú verður vonandi bragarbót gerð á því með því að lengja þetta um einn mánuð og þá verði ekki um frekari frest að ræða. Þess vegna segi ég já.