138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í umræðu um þetta mál í gær rakti ég í löngu máli ýmsa fyrirvara og bar upp spurningar sem ég taldi að þyrfti að svara áður en við færum í einhverja stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, sem þessi framkvæmd er. Ég hef áhyggjur af því að hún komi til með að hafa áhrif á heilbrigðisþjónustuna í heild sinni. Ég minni á að hér varð efnahagshrun og staða ríkissjóðs er mjög slæm. Það þarf ekkert að velkjast í vafa um það.

Ég lagði til í álitinu að farið yrði í kostnaðar- og ábatagreiningu og þá sérstaklega varðandi heildaráhrifin á allt landið, þ.e. þar sem þetta verkefni mun hafa áhrif. Það er jákvætt að meiri hluti fjárlaganefndar skuli hafa lagt til að málið komi að nýju til fjárlaganefndar. Ég styð það en ég get því miður ekki stutt frumvarpið fyrr en það liggur fyrir nákvæmlega hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á hagkerfið og hvort framkvæmdin sé hagkvæm í heild sinni. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu alls frumvarpsins.