138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á sama tíma og ég styð heils hugar að við undirbyggjum það að reisa nýjan Landspítala hef ég miklar efasemdir um þetta mál og þá sérstaklega staðsetninguna sem hefur verið valin fyrir þessa byggingu. Ég hef áður fært rök fyrir því á þingi og ég tel að það eigi eftir að fara fram miklu meiri vinna í því að skoða hagkvæmni þess að reisa spítalann þar sem fyrirhugað er að reisa hann og hagkvæmni þess að endurbyggja gamlar byggingar og tengja við þessa nýju byggingu.

Það hefur komið fram, m.a. í svörum frá hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn minni, að gríðarlegur kostnaður gæti legið í samgöngumannvirkjum í kringum þessa byggingu. Þetta er ekki tekið inn í heildardæmið eins og það hefur verið lagt fram. Ég mun því ekki geta greitt þessu atkvæði.