138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum.

465. mál
[13:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vildi draga það fram á lokasprettinum að pneumókokkasýkingar valda eyrnabólgum í börnum, reyndar líka heilahimnubólgu og blóðsýkingum en aðallega eyrnabólgum, og 95% barna fá eyrnabólgu. Þetta er ótrúlega há tala, 95% barna, og við erum heimsmeistarar í að setja rör í eyru barna, 1/3 barna á Íslandi er með rör í eyrum. Pneumókokkasýkingar og eyrnabólgur skýra yfir helming notkunar á sýklalyfjum fyrir börn þannig að þetta er mjög víðtækt vandamál.

Það er með mikilli gleði að við fáum að taka þátt í því að samþykkja þetta mál. Ég vil taka fram að það að afgreiða þetta mál sýnir að þingmannamál ná í gegn. Sú er hér stendur er 1. flutningsmaður. Næsta mál sem við erum að samþykkja, HPV-veirubólusetningar gegn leghálskrabbameini, er líka þingmannamál frá Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og það er líka að ná í gegn. Við erum nýbúin að samþykkja græna hagkerfið frá hv. þm. Skúla Helgasyni þannig að þetta eru nýir tímar á Alþingi. (Forseti hringir.) Við erum að samþykkja þingmannamál. Þetta sætir tíðindum, virðulegi forseti, og sannar að það eru nýir tímar á Alþingi Íslendinga.