138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[13:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í apríl sl. dæmdi Mannréttindadómstóll Evrópu að lög um iðnaðarmálagjald brytu gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu sem hið háa Alþingi hefur fest í lög. Iðnaðarmálagjaldið er 0,08% af öllum iðnaði í landinu sem rennur til Samtaka iðnaðarins. Frumvarpið sem við hér ræðum og greiðum atkvæði um er ein efnisgrein og í henni er lagt til að öllum atvinnurekendum verði skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins iðgjald sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt reglum kjarasamninga. Ljóst er að ekki liggur fyrir í frumvarpinu hver tilgangur gjaldtöku í fræðslusjóð er. Um sjóðina gildir enginn lagarammi og í reynd er ekkert hámark á gjaldinu og hvernig og hverjum það skuli nýtast. Verði því að teljast allar líkur á að gjaldið, líkt og iðnaðarmálagjald, brjóti gegn (Forseti hringir.) ákvæðum 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og 11. gr. mannréttindasáttmála (Forseti hringir.) Evrópu. Leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði fellt.