138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

almenn hegningarlög.

649. mál
[14:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin. Það sem hæstv. ráðherra kom inn á varðandi evrópsku handtökutilskipunina vefst enn þá fyrir mér. Í mjög mörgum tilvikum er um að ræða augljós hagkvæmnisrök, sérstaklega gagnvart þeim löndum sem eru okkur skyldust í réttarpólitískum skilningi. Hins vegar áttum við okkur líka á því að Evrópusambandið hefur verið að stækka mjög hratt. Inn hafa komið lönd sem hafa töluvert annan bakgrunn í lagasetningu. Ég játa það að ég er nokkuð hugsi yfir því að íslenskum yfirvöldum kunni að vera skylt að framfylgja úrskurði dómstóla eða yfirvalda í löndum sem svo háttar um, alveg óháð því hvernig íslensk löggjöf er. Jafnvel geta orðið árekstrar milli t.d. almennra mannréttindasjónarmiða og þessara sjónarmiða. Við vitum t.d. að réttarstaða ýmissa hópa í ýmsum löndum Austur-Evrópu, minnihlutahópa af ýmsu tagi, er mun verri en í vesturhluta álfunnar. Hvernig kemur þetta til með að vera gagnvart því, svo dæmi sé nefnt?

Þróunin getur orðið jafnvel enn þá erfiðari ef um frekari stækkun Evrópusambandsins yrði að ræða. Ég vil ekki halda því fram að líkur séu á því að Tyrkland t.d. fari inn í Evrópusambandið á allra næstu árum. Það er hins vegar ekki óhugsandi að svo verði í framtíðinni. Sama á við önnur ríki austar í Evrópu sem við höfum (Forseti hringir.) oft áhyggjur af í sambandi við lýðræðisþróun og slíka þætti.