138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[14:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra hefur nú nýverið lokið við að mæla fyrir breytingum á almennum hegningarlögum. Sömuleiðis hefur hæstv. forsætisráðherra fyrr á þessu þingi mælt fyrir og lagt fram frumvarp sem varðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og ýmis önnur lög og fjallar um siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn og ráðherra. Með þessum tvennum hætti má segja að búið sé að uppfylla þau skilyrði sem þarf til þess að við Íslendingar getum ráðist í það að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu, sem samþykktur var fyrir sjö árum á allsherjarþinginu. Það leikur enginn vafi á því að spilling er meinsemd sem nær yfir öll landamæri og getur mjög grafið undan stöðugleika og öryggi samfélaga. Spilling skaðar lýðræðið og réttarríkið. Hún veldur öllum samfélögum og hagkerfum heimsins töluverðu tjóni. Má segja að hún sé hnattrænt fyrirbæri. Þessi samningur er fyrsti samningurinn sem tekur á spillingu með hnattrænum hætti.

Hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra sem talaði fyrr, rakti vel kjarnann í því máli sem við fjöllum hér um og fór yfir helstu efnisreglur. Ég ætla þess vegna ekki að fjölyrða í löngu máli um eðli þessa samnings. Ég vil þó segja það að tilgangur hans er þríþættur. Í fyrsta lagi að stuðla að því og styrkja ráðstafanir til að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu með skilvirkari og árangursríkari hætti en áður. Í öðru lagi er tilgangurinn að stuðla að og greiða fyrir alþjóðlegri samvinnu og styðja við hana og tæknilega aðstoð í tengslum við baráttuna gegn spillingu, m.a. með því að stuðla að því að endurheimta fjármuni. Í þriðja en síðasta lagi er tilgangurinn ekki síst sá að stuðla að ráðvendni, áreiðanleika og góðri opinberri stjórnsýslu og umsýslu opinberra eigna.

Í þessum tilgangi tilgreinir samningurinn hugtök. Hann kveður á um forvarnir, lýsir tiltekið athæfi refsivert. Í honum eru sömuleiðis settar reglur um alþjóðlega samvinnu til þess að uppræta spillingu. Þar er fjallað um ráðstafanir til að endurheimta eignir, tæknilega aðstoð, upplýsingaskipti og ýmislegt fleira.

Ég tel að þessi samningur veiti okkur einstakt tækifæri til þess að berjast gegn spillingu, bæði hvað varðar hið opinbera og einkageirann. Eins og ég sagði fyrr í máli mínu, er hann fyrsti hnattræni bindandi samningurinn sem er gerður í þessu skyni. Ég tel að það sé orðið löngu tímabært að Ísland gerist aðili að samningnum, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað á Íslandi, að því er virðist, í aðdraganda efnahagshrunsins.

Með þessari þingsályktunartillögu er ég því fyrir hönd framkvæmdarvaldsins að leita heimildar Alþingis fyrir því að Ísland geti gerst aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu, sem samþykktur var á allsherjarþinginu árið 2003.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði málinu vísað til umfjöllunar hjá hv. utanríkismálanefnd.