138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:48]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Mál það sem hér er til umfjöllunar er að mínu viti afskaplega brýnt og mikilvægt, enda varðar það börn og ungmenni og löggjafinn á ekki síst að þjóna þeim mikilvæga aldurshópi sem er yngri en 18 ára. Þetta mál varðar notkun á ljósabekkjum sem hafa notið mikilla vinsælda á undanliðnum árum og áratugum hér á landi, ef til vill af þeirri ástæðu að okkur vantar á stundum náttúrulegt ljós í því mikla skammdegi sem ríkir á Íslandi. Notkun ljósabekkja hefur þó að mati þess sem hér stendur farið úr hófi fram á undanförnum árum og áratugum og ekki síst á meðal yngsta aldurshópsins.

Heilbrigðisnefnd fékk á sinn fund nokkra málsmetandi aðila vegna þessa máls sem gjörla þekkja til notkunar ljósabekkja og þeirra afleiðinga sem sú notkun getur haft á húð fólks. Ég met það mjög mikils hversu vandað það efni var sem lagt var fram fyrir nefndina. Hér tala tölur vissulega sínu máli eins og fram kemur í nefndaráliti frá meiri hluta heilbrigðisnefndar, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fram kemur í umsögnum Krabbameinsfélags Íslands og heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands að tíðni húðkrabbameins hafi vaxið gríðarmikið á undanförnum árum og samkvæmt krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins eru hér á landi um 50 manns greindir með sortuæxli í húð og um 60 með annars konar illkynja húðæxli á hverju ári. Enn fremur kemur fram í gögnum frá Geislavörnum ríkisins að nýgengi sortuæxla meðal kvenna samkvæmt krabbameinsskrá frá árinu 2004 hafi aukist gríðarlega frá árinu 1990. Þá kemur fram að börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir útfjólublárri geislun en í gögnum Geislavarna ríkisins, sem byggjast á árlegum könnunum Capacent Gallup, hefur hátt í helmingur allra einstaklinga 16–19 ára farið í ljós á tólf mánaða tímabili, rúmlega 40% á aldrinum 20–23 ára og rúmlega 20% á aldrinum 12–15 ára.“

Þetta eru athyglisverðar tölur, svo ekki sé meira sagt, og ég staldra sérstaklega við hópinn frá 12–15 ára en fimmtungur þess hóps stundar reglulega ljósabekki. Þegar horft er til aldursflokksins 16–19 ára sést að helftin af þeim hópi stundar þessa iðju reglulega. Þetta er með öðrum orðum afskaplega mikil notkun en mér er til efs að þeim ungmennum sem stunda ljósabekki sé með öllu kunnugt um mögulegar afleiðingar þessa, sem eru jú studdar vísindalegum rannsóknum.

Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni á löggjafinn vissulega að hafa hag barna og ólögráða fólks mjög í fyrirrúmi og það er gert í þessu frumvarpi um breytingu á lögum um geislavarnir sem hér er til umfjöllunar. Vitaskuld á löggjafinn alltaf að fara varlega þegar kemur að boðum og bönnum og frelsi einstaklinga á að vera haft að leiðarljósi við alla lagasetningu en hér er hins vegar verið að huga að þeim hópi fólks sem notar ljósabekki og kannski síst gerir sér grein fyrir hættunni sem fylgir notkun þeirra. Því finnst mér eðlilegt að löggjafinn grípi til aðgerða gagnvart þessum hópi, rétt eins og gert er gagnvart sama hópi með margvíslegri annarri lagasetningu og reglugerðum.

Ég lýsi mig algerlega fylgjandi málinu og tel að það sé þjóð okkar til heilla að fara þessa leið. Við Íslendingar höfum horft á það á undanförnum árum að sú tíska hefur mjög rutt sér til rúms, jafnvel á meðal fermingarbarna og ekki síst fermingarstúlkna, að mæta helst ekki til kirkju á þeim góða degi þegar hver maður fermist öðruvísi en þeldökkur á húð eftir mikla notkun ljósabekkja. Ég tel að sá ágæti hörundslitur sem þessum bekkjum fylgir sé ekki það brýnn við fermingar að börn muni skaðast af þessu banni. Þvert á móti mun þessi lagasetning koma í veg fyrir að börn og ungmenni skaðist og þá er til mikils unnið.