138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:54]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta mál sem við ræðum hér er gott. Lagt er til að við hindrum að börn og unglingar leggist í ljósabekki vegna þess að tíðni húðkrabbameins hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum á Íslandi, sérstaklega meðal kvenna. Samkvæmt krabbameinsskrá hefur vöxtur sortuæxla aukist gríðarlega frá árinu 1990. Það hefur líka komið fram við umfjöllun þessa máls og í greinargerðinni sem fylgdi því þegar það kom hingað inn að börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæmur hópur, viðkvæmari en fullorðnir, þótt ljósabekkir séu sjálfsagt líka skaðlegir fyrir hina fullorðnu, sérstaklega ef þeir eru notaðir í óhófi. Það er ekkert annað að gera en að taka á þessum vanda vegna þess að við höfum ekki séð neina framför upp á síðkastið varðandi notkunina, þ.e. börn og unglingar hafa ekki minnkað notkun sína nógu mikið.

Það er búið að skoða og aldursgreina þennan hóp og tölurnar sem við sjáum eru ótrúlega háar. Samkvæmt árlegum könnunum Capacent Gallup hafa rúmlega 40% á aldrinum 20–23 ára farið í ljós á síðustu 12 mánuðum áður en sú könnun var gerð og 20% á aldrinum 12–15 ára. Hátt í helmingur allra einstaklinga á aldrinum 16–19 ára hefur farið í ljós einhvern tímann á síðasta 12 mánaða tímabili. Maður trúir þessu varla. Getur það verið að ef maður skoðar hópinn 19 ára og yngri hafi hátt í helmingur hópsins farið í ljós á síðustu 12 mánuðum? En þetta er staðreynd, virðulegur forseti. Með fræðslu og leiðbeiningum hefur tekist að fækka verulega í hópnum 20–23 ára og það er gott. Minni fækkun hefur orðið í hópnum 16–19 ára en ekki fækkun í hópi 12–15 ára. Þetta er mjög merkilegt. Áróðurinn hefur skilað sér til eldri aldurshópanna en ekki til barnanna. Þessu verðum við að taka á. Þetta mál er forvarnamál.

Tvö sjónarmið vega hér allra þyngst, annars vegar að börn og unglingar eru í húfi og hins vegar að það er búið að sanna — það þarf ekkert að rífast um það lengur — að útfjólublá geislun frá sólarlömpum er krabbameinsvaldandi. Það hefur Alþjóðlega rannsóknastofnunin í krabbameinsfræðum gert og endanleg sönnun var gefin út í fyrra, 29. júlí 2009. Strax og maður fær svona skýrar upplýsingar verður auðvitað að bregðast við.

Ég tel að það sé ábyrgðarhluti að gera þetta ekki. Ég tel að það sé ábyrgðarhluti ef löggjafinn situr með hendur í skauti þegar við vitum að hér eru börn í húfi og búið er að sanna að geislarnir í ljósabekkjunum eru krabbameinsvaldandi. Þess vegna styð ég þetta mál. Það getur verið að í framtíðinni verði jafnvel tekin frekari skref í þessu, eins og við höfum gert á mörgum öðrum sviðum í forvarnaskyni. Kannski er það framtíðin að fólk verði látið borga heilbrigðisþjónustunni fyrir þjónustu sem það nýtur af því það er að kalla yfir sig áhættu. Það er mjög erfið umræða en hér eru alla vega komnar fram sannanir um að ljósabekkirnir eru krabbameinsvaldandi eins og þeir eru úr garði gerðir í dag.

Ég spurði að því í nefndinni hvort líklegt væri að fundnir yrðu upp ljósabekkir í framtíðinni sem væru ekki krabbameinsvaldandi. Miðað við tæknina í dag er svarið nei og ekkert bendir til þess að svo verði. Það er kannski eitthvað sem hægt er að skoða síðar en eins og staðan er í dag er mjög brýnt að samþykkja þetta mál til að verja börn og unglinga. Okkur hefur ekki tekist að verja þau hingað til með fræðslu og þess vegna eigum við að taka þetta skref.

Ég er sammála því sem kom fram í framsöguræðu hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiðar Ingadóttur á sínum tíma þegar þetta mál var flutt að það er brýnt að taka þetta í gegn. Ég vil endurtaka það sem ég sagði þá að við vitum alveg nóg til þess að geta tekið þetta skref. Því mun ég styðja þetta mál heils hugar.