138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. 1949 og þar á eftir voru vextir frádráttarbærir frá tekjum einstaklinga. Því var hætt vegna þess að það var verðbólga og neikvæðir raunvextir og þá gátu menn dregið vextina frá tekjuskatti, það kom alveg hræðilega illa út þannig að það var hætt að leyfa frádrátt vaxta. Um leið og menn gerðu það kom upp hinn vandinn, að þegar lán voru felld niður var ómögulegt að telja þeim það til tekna.

Við skulum taka dæmi um bílalán sem var tekið upp á tvær milljónir, hækkaði upp í fjórar. Það hefði átt að telja þessar tvær milljónir til frádráttar tekjum, öllu eðli samkvæmt. Svo þegar þetta lán er fellt aftur niður um tvær milljónir þá eiga það ekki að vera tekjur af því að það var ekki hægt að draga það frá tekjum sem voru gjöld áður. Þess vegna er þessi hugsun yfirleitt órökrétt. Hún er órökrétt og ég held að hv. nefnd þurfi að taka þetta alveg sérstaklega fyrir og reyna að átta sig á því hvernig sé rökrétt að hafa þetta. Reyndar er það þannig að söluhagnaður húsnæðis er skattskyldur eftir tvö ár ef menn hafa ekki fjárfest í annarri eign. Þannig að því leyti er söluhagnaður skattskyldur. Ég veit ekki hvað gerist ef maður sem keypti íbúð fyrir ári selur hana með miklu tapi, hann getur ekki dregið hana frá skatti en hann ætti að geta það — hann ætti að geta það — og verið skattfrjáls í mörg ár á eftir ef hann er búinn að tapa miklu.