138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það væri gaman að fara yfir þessa sögu, ég kann hana greinilega ekki jafn vel og hv. þingmaður, varðandi meðferð þessara mála svona í gegnum tíðina. Eitt veit ég þó, að þegar verðtrygging lána kom til sögunnar og fólk fór almennt að borga raunvexti af húsnæðislánum sínum þá voru teknar upp vaxtabætur á móti til að aðstoða fólk við þann kostnaðarlið. Þannig hafa menn þá sýnt á því skilning að þar eru útgjöld hjá fólki og vaxtabæturnar hafa aðstoðað tekjulága einstaklinga til þess að ráða við þessar (PHB: …bætur) skuldbindingar. Ég hygg að hv. þingmaður geti ekki sett þetta upp svona kategórískt eins og hann gerir, að það ætti bara algerlega að horfa fram hjá því hversu stórfelldar skuldaniðurfellingar menn gætu fengið og þær ættu aldrei að vera andlag skattlagningar af því að menn hafi ekki fengið vextina frádráttarbæra. Ef maður kaupir dýrt hús og tekur til þess lán, 100 millj. kr. villu og hann tekur til þess 100 millj. kr. lán, og svo kemur einhver örlátur bankastjóri og fellir lánið niður daginn eftir (PHB: Af hverju gerir hann það?) á hann þá bara að eiga húsið skuldlaust og það myndast enginn skattur? Á hann að eignast 100 milljóna eign? (Gripið fram í: Af hverju ætti bankastjórinn að gera það?) Já, af hverju ætti hann að gera það? Það er góð spurning. (Gripið fram í.) Ef við tökum einhver svona mjög ýkt dæmi þá hljóta menn að sjá að þannig er væntanlega ekki ætlunin að menn geti fyrir einhverja örlætisgerninga stórefnast og myndað mikla eign upp úr þurru án þess að það sé andlag skattlagningar.

Við erum auðvitað ekkert að tala um þá hluti hér. Við erum að tala um hvernig við mætum þeim aðstæðum sem hafa skapast í íslensku samfélagi, þeim skilmálabreytingum og þeim skuldaniðurfellingum sem verið er að reyna að ráðast í, til þess að gera fólki kleift að ráða við greiðslubyrðina af lánunum og að sjálfsögðu er eðlilegt við okkar aðstæður að slíkt sé almennt talað ekki andlag skattlagningar. Það mundi vinna gegn hugsuninni í þeirri aðgerð. Þess vegna er þetta frumvarp nú flutt til að ná utan um að svo sé ekki, en það er gert á þann hátt að haldið er í heiðri grunnreglu skattaréttarins, hún er ekki slegin af heldur eru veittar frá henni ríkulegar ívilnanir.