138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma með nokkrar stuttar ábendingar út af þessu framkomna frumvarpi sem eins og hæstv. fjármálaráðherra tók fram kemur mjög seint fram á þessu þingi, en er engu að síður þarft að taka til umræðu vegna þess að um þetta efni hefur ríkt talsvert mikil óvissa, þ.e. hvernig farið yrði skattalega með eftirgjöf skulda. Eins og við öll vitum eru í gangi almennar aðgerðir í því efni hjá fjármálastofnunum og ýmsum öðrum lögaðilum úti um allan bæ vegna efnahagshrunsins.

Í fyrsta lagi vekur þetta mál auðvitað upp spurningar um það hvernig farið hefur verið með niðurfellingar skulda í fortíð, í frumvarpinu kemur fram að skýrt sé samkvæmt skattareglum og skattalögum að allur slíkur ávinningur sé skattskyldur, andlag skattlagningar, en mig grunar að framkvæmdin hafi eftir atvikum ekki verið sú sama, þannig að það hlýtur að koma til skoðunar í nefndinni hvernig framkvæmdin hefur verið fram til þessa.

Í öðru lagi vil ég láta þess getið að þetta mál slær mig sem töluvert flókið. Það kunna ávallt að vera gild rök fyrir því að mál séu flókin eða langar og efnismiklar lagagreinar séu um efnið, vegna þess að efnið sjálft býður ekki upp á annað en að menn skrifi sig svona frá öllum álitaefnum, en jafnvel þótt það eigi við í þessu máli að lagagreinarnar séu mjög langorðar og efnismiklar, þá eru enn sem fyrr ýmis álitaefni skilin eftir opin. Ég vil leyfa mér að nefna dæmi úr 1. gr. frumvarpsins a-lið, þar undir 7. mgr., að því er mér sýnist, segir, með leyfi forseta:

„Sé skilmálum í samningi um lán sem tengjast rekstri lögaðila og sjálfstætt starfandi manna breytt með þeim hætti að endurgreiðsla miðist við íslenskar krónur í stað erlends gjaldmiðils telst það vera skilmálabreyting láns en ekki eftirgjöf skuldar í skilningi laganna, þótt uppreiknaður höfuðstóll sé leiðréttur til lækkunar, enda sé breytingin gerð á málefnalegum forsendum og lánskjörum breytt í kjör sem eru almennt í boði við sambærilegar aðstæður.“

Hér sjá menn auðvitað í hendi sér að þrátt fyrir þessa lagasetningu verður mjög matskennt hvenær breyting verður gerð á málefnalegum forsendum, hvenær lánskjörum hefur verið breytt til samræmis við það sem er almennt í boði og hvenær teljast vera til staðar sambærilegar aðstæður þegar borin eru saman tvö tilvik. Í framkvæmd getur þetta valdið því að eftir að mál af þessum toga er afgreitt hér á þinginu verði ákveðin óvissa um skattalega meðferð fjárhagslegrar fyrirgreiðslu, sem lánastofnanir veita bæði einstaklingum og lögaðilum, t.d. í því formi sem hér er til umfjöllunar. Þetta verður væntanlega til þess að það mun þurfa að kalla eftir bindandi áliti frá skattinum um það hvort einhver tvö tilvik teljist sambærileg, hvort aðgerðir sem verið er að horfa til teljist almennar þegar horft er til þess að ýmislegt fleira er í boði o.s.frv. Ef sú leið sem lagt er upp með hér verður farin verða áfram gríðarlega mörg matskennd atriði eftir sem ekki eru veitt svör við.

Ég geri mér grein fyrir því að ekki er hægt að skrifa sig frá öllum álitaefnum en ég óttast engu að síður að sumt af því sem mundi augljóslega falla undir þetta standi ósvarað eftir sem áður.

Ég vil síðan örstutt minnast á og taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal þar sem hann bendir á hversu mjög staða fyrirtækja er ólík stöðu einstaklinga. Auðvitað er að mörgu að hyggja þegar kemur að stöðu einstaklinga og fjölskyldna almennt í landinu og þeirrar slæmu stöðu sem margar fjölskyldur eru í eftir efnahagshrunið. Þar má nefna þætti eins og minnst var á fyrr í umræðunni að auðvitað er lítið tillit tekið til þess að eignaverð hefur hríðlækkað. Mig langar líka til að nefna dæmi um mál sem gæti verið mjög raunhæft, erlent lán sem hefði staðið mjög illa eftir efnahagshrunið og hrun krónunnar, gefum okkur t.d. að viðkomandi skuldaði í evrum og segjum að á einhverjum slæmum tímapunkti hafi verið 190 kr. í einni evru og staða lánsins afskaplega óhagstæð fyrir lántakandann. Ef okkur hefði tekist að snúa efnahagslífinu við hér á skömmum tíma og styrkja krónuna og værum komin með evruna aftur niður, segjum undir 100 kr., hefði það að krónan hefði snúist svona við ekki myndað neinar skattalegar tekjur hjá viðkomandi einstaklingi. Við þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru uppi má auðvitað spyrja hvort niðurfelling skuldar sem miðar við að lánið verði leiðrétt miðað við nýtt gengi eigi að valda skattlagningu á grundvelli þess að þar hafi átt sér stað fyrirgreiðsla sem falli undir reglur laganna.

Þetta er á meðal þeirra álitaefna sem koma upp í hugann þegar maður rennir yfir þetta frumvarp sem nú er nýframkomið og hlýtur að þurfa að fá efnislega meðferð í nefnd og m.a. að fara til umsagnaraðila. Fyrst ég tek þetta dæmi vil ég nefna að ég hef auðvitað tekið eftir því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í ákveðnum tilvikum geti skuldbreytingar úr erlendum myntum yfir í íslenskar krónur verið skattfrjálsar, þannig að að minnsta kosti að hluta til hefur verið gert ráð fyrir þeim leiðréttingum sem eru svo algengar núna í bankakerfinu.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi koma inn á. Ég hef vissar áhyggjur af flækjustiginu. Ég hef áhyggjur af því að talsvert mörg atriði séu eftir í frumvarpinu sem erfitt verði að leggja mat á, þannig að bæði einstaklingar og lögaðilar sem fá fyrirgreiðslu í bankakerfinu verði áfram í óvissu um hvort það muni leiða til skattlagningar vegna orðalags eins og þess sem er að finna í frumvarpinu um að forsendur þurfi að hafa verið málefnalegar, að lánskjörum hafi verið breytt í samræmi við það sem almennt er í boði og í boði við sambærilegar aðstæður o.s.frv. Það er slæmt. Almennt viljum við auðvitað sjá skattalög og skattaframkvæmd sem er eins gegnsæ og einföld og kostur er.

Ég held að mikilvægt sé að þetta frumvarp komi fram. Eins og ég vék að í upphafi máls mín hefur óvissan um það hver skattaleg meðferð niðurfellinga er verið óviðunandi og ég fagna því að fjármálaráðherra komi fram með frumvarp sem ætlað er að svara þeim spurningum.