138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Eitt sinn varð einum helsta pólitíska ráðgjafa ríkisstjórnarinnar að orði „að öll lífsins gæði myndi skattstofn“. Þessi hugmyndafræði hefur nú náð nýjum hæðum. Frumvarp það sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir að niðurskriftir skulda heimila myndi skattstofn hjá þeim en til að gæta allrar sanngirni munu flest heimili sleppa undan þessu en ekki öll. Þetta kallar maður að láta kné fylgja kviði svo að um munar. Fjölskyldur sem af einhverjum ástæðum misstu tök á fjármálum sínum og ráða ekki við að standa í skilum með lán sín munu verða tekjulind fyrir ríkið. Þetta heitir að skattleggja ógæfu borgaranna.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að þetta næði yfir u.þ.b. 95% skuldara, að þeir mundu ekki lenda í skattlagningu. Þá liggja eftir 5% skuldara. Ef við reiknum það yfir á fjölskyldur, af því að yfirleitt eru fjölskyldur með sameiginlegan fjárhag, gæti það nálgast 5.000 fjölskyldur. Og þetta eru frekar ungar fjölskyldur vegna þess að eðli skulda er þannig að maður skuldar mest þegar maður er ungur og minnst þegar maður er gamall. Þetta gæti því nálgast það að snerta í kringum 20.000 manns. Það er þó nokkuð mikið, verð ég að segja. Ég ítreka það að auðvitað nær þetta yfir langflesta og þetta eyðir þeirri óvissu sem verið hefur með skattlagningu á niðurfellingu skulda.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi í ræðu sinni, eða í andsvari, dæmi sem maður gat ekki annað en verið sammála. Það var dæmi um einhvern sem tók sér 100 millj. kr. lán, keypti fyrir það villu og fékk það síðan niðurfellt. Auðvitað erum við öll sammála um að það ætti að mynda einhvers konar skattstofn. Þar er verið að gefa. En ég fullvissa hæstv. fjármálaráðherra um að bankarnir geta ekki unnið svona. Í bönkunum er farið eftir vissum reglum og kerfum og gjöf af þessu tagi mundi ekki líðast innan kerfisins. Ég gef því ekki mikið fyrir þau rök.

Það sem gerðist hér í október 2008 var að það varð kerfishrun. Almenn skattalög og almenn skattaframkvæmd getur aldrei falið í sér að lögin og þær aðferðir sem fylgt er ráði við slíkt hrun. Þess vegna þarf að bregðast við með þessari lagasetningu. Á nákvæmlega sama hátt ættu skuldir sem hækkuðu vegna gríðarlegs gengisfalls krónunnar, greiðslubyrði sem varð óviðráðanleg vegna þess að fólk varð atvinnulaust eða lækkaði gríðarlega mikið í launum, að flokkast inn í þessu kerfishruni og þar af leiðandi að verða skattfrjálst.

Niðurfelling sem er lægri en 20 milljónir mun ekki mynda skattstofn hjá hjónum. En margir eru í þeirri stöðu að þurfa að fá miklu meiri niðurfellingar en það. Mér dettur í hug vegna þess að ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er það hugleikið og hann þekkir þær tegundir fjölskyldna sem lentu í þeirri ógæfu — hvað með fjölskyldurnar t.d. í Vestur-Húnaþingi sem fjárfestu í stofnfjárbréfum, hvað ætli þær segi um þessa ráðstöfun? Hvernig ætli gangi að fá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að lyfta hendinni þegar greiða þarf atkvæði um frumvarpið? Eða hugsum okkur fjölskyldurnar þar sem fyrirvinnan vann kannski í bankakerfinu og var með einhvers konar kaupréttarsamninga — af sögum að dæma stóð stundum ekkert val á milli þess hvort maður tæki það eða ekki, það var partur af pakkanum. Talið er að það séu á milli 600 og 1.000 manns sem svo er ástatt um. Hvað á að gera við það fólk? Eina leiðin fyrir það fólk er gjaldþrot; eina leiðin, vegna þess að ekki getur það leitað nauðasamninga.

Það er orðið alveg kristaltært að fjölskyldum eða einstaklingum sem þannig er ástatt fyrir hefur verið neitað um greiðsluaðlögun eða nauðasamninga vegna þess hvernig þeirra málum er háttað og þá er það bara gjaldþrot. Af hverju ættum við að vilja taka úr umferð kannski 600 til 1.000 manns, kannski 3.000–5.000 manns ef við teljum fjölskylduna alla saman — af hverju ættum við að vilja taka þetta fólk úr umferð? Það er enginn tilgangur með því. (Gripið fram í: Jarðir úr ábúð.) Afsakið, (Gripið fram í.) — já, jarðir úr ábúð og annað slíkt og heilu sýslurnar á vonarvöl, eins og verður í Vestur-Húnaþingi ef þetta verður að veruleika.

Ég held að þessi ráðstöfun beri ekki vott um mikla mannúð. Við hljótum að láta þá skattalegu meðferð sem þessar niðurfellingar munu taka, við hljótum að láta þær endurspegla það kerfishrun sem varð hér. Af hverju viljum við vera að taka fólk svona úr umferð? (Fjmrh.: Hvað á þetta tal að þýða? Þú hefur ekki lesið frumvarpið.) Hæstv. fjármálaráðherra, ég hef víst lesið frumvarpið. Hæstv. fjármálaráðherra tók það sérstaklega fram hér áðan að þetta næði til 95% skuldara, ég er að tala um 5% sem eftir standa. Ég er búinn að lesa frumvarpið. Ég er ekki búinn að lesa það nákvæmlega eða reikna út dæmi og annað slíkt vegna þess að það kom ekki fram fyrr en seint í gærkvöldi, þegar við vorum hér í öðrum umræðum, og ég hef verið á nefndafundum í allan morgun, en ég náði nú samt að renna yfir það.

Ég held að frumvarpið ætti að taka skýrt og greinilega til þess að hér varð kerfishrun. Hér varð forsendubrestur, ekki bara hjá sumum skuldurum heldur hjá öllum skuldurum, öllum skuldurum. Við eigum að hafa þá mannúð að láta frumvarpið endurspegla það.

Ég hef ekki náð að fara nákvæmlega yfir frumvarpið, yfir fyrirtækjahlutann sérstaklega, ætla ég að geyma mér að tala um þann hluta þangað til við höfum fjallað um þetta í efnahags- og skattanefnd. En það er samt sem áður algjörlega ljóst að fyrirtæki sem eru í einhvers konar samningum, hvort sem um er að ræða nauðasamninga, frjálsa samninga, greiðslustöðvun eða hvað það er, við bankana, að erfiðara verður fyrir stjórnendur slíks fyrirtækis að ná einhverri vitrænni niðurstöðu í nauðasamningum — ég er hræddur um að kröfuhafar sætti sig ekki við að fara að reikna inn einhverjar skattgreiðslur í framtíðinni.

Þrátt fyrir að þetta nái yfir flesta Íslendinga væri verið að skattleggja ógæfu sumra með þessu.