138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrirtækin er rétt að taka það fram að þetta hefur að sjálfsögðu verið rætt við forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, þeim var kynnt sú nálgun sem hér var á ferðinni og ég fékk ekki betur skilið en að þeir teldu hana tiltölulega ásættanlega og sanngjarna. Ríkið tekur umtalsverðan þátt í aðgerðunum og býr þannig um málið að öll ónýtt töp og möguleiki á fyrningu kemur fyrirtækinu til góða og ekki er ástæða til að ætla annað en að þetta greiði fyrir og setji skýran ramma um það skattlagningarumhverfi sem fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja byggist á.

Varðandi einstaklingana verð ég að fá að segja að þótt ég hafi tekið hér þá viðmiðunartölu, a.m.k. 95% allra sem í hlut eiga yrðu sjálfkrafa undanþegnir og ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þeim, þýðir það ekki að hin 5% séu sett á kaldan klaka. Það gætu orðið svona 3–5% þar sem fjárhæðirnar væru svo háar að slík skattlagning kæmi til álita, þá er það skoðað hvort forsendur séu til hennar. Í langflestum tilvikum yrði niðurstaðan væntanlega annaðhvort engin eða mjög óveruleg skattlagning sem menn fengju tækifæri til að fresta í tvö ár, síðan dreifa í mörg ár ef aðstæður þeirra eru þær að þeir fá ekki úrlausn sinna mála á grundvelli 3. mgr. 28. gr., og það munu mjög margir fá.

Talandi um bændur í erfiðleikum í Húnaþingi eða aðra þá sem keyptu stofnfjárbréf í sparisjóðum munu þau ákvæði frumvarpsins sem rækilega er fjallað um í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða b nákvæmlega taka á þeirra aðstæðum. Hafi engin eða óveruleg eignamyndun orðið, hafi menn ekki hagnast á skuldaniðurfellingunni, séu ekki umtalsverðar aðrar eignir til staðar, sé aflahæfi manna skert, verða engar forsendur skattlagningar. Þá verður ekki um hana að ræða. Þannig að nákvæmlega þau ákvæði eru til þess hugsuð að hægt sé að taka á slíkum málum með mannúð að leiðarljósi, svo að hv. þingmaður hafi það nú á hreinu.