138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:56]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er örlítið ringlaður eftir þetta andsvar hæstv. fjármálaráðherra. Ef það getur verið að þetta snerti ekki neinn, til hvers erum við þá að þessu? Til hvers er þá verið að búa til þetta flókna verk í kringum þetta ef það þjónar ekki neinum tilgangi? Ef allir sleppa undan þessu, til hvers er þá verið að búa þetta til? Ég bara sé ekki hvernig það má vera.

Segjum að fyrirtæki skuldi 1.000 milljónir og þurfi að fá niðurfellingu niður í 500 milljónir til þess að vera rekstrarhæft, eða til þess að reksturinn geti þjónað efnahagsreikningi. Fyrirtækið þarf síðan að borga skatta af þeirri niðurfellingu og þá er alveg augljóst að sá mismunur skerðir rekstrarhæfi fyrirtækisins nema hæstv. fjármálaráðherra hafi náð að semja við bankana og eigendur þeirra um að bankarnir séu tilbúnir til að fella niður enn meiri skuldir en 500 milljónir til að fyrirtæki ráði við að borga skatta. Ég hef enga trú á því, þrátt fyrir orð hæstv. fjármálaráðherra, að bankarnir ætli sér að fella niður skuldir þannig að fyrirtækin geti farið að borga skatta af niðurfellingu. Ég hef bara enga trú á því, alveg sama hvað hæstv. fjármálaráðherra segir.