138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hv. þingmenn og hv. þingnefnd hefur farið rækilega yfir þetta mál bind ég vonir við að menn verði sáttir við að hér sé verið að reyna að fara málefnalega og sanngjarna leið í þessum efnum. Hv. þingmaður spyr: Til hvers þarf þetta þá ef þetta kemur við mjög fáa? Það er m.a. til þess að ekki þurfi að hverfa frá og henda algerlega mikilvægri grundvallarreglu skattaréttarins, sem ég fór yfir í framsögu minni. Hér er verið að veita mjög ríkulegar undanþágur og miklar ívilnanir frá mikilvægri grundvallarreglu í skattarétti. Frumvarpið gengur allt í þá átt og gengur reyndar mjög langt í þá átt. Það er meira að segja reynt að gera það þannig að þeir sem ekki fá úrlausn sem þeir eru sáttir við sjálfkrafa vegna meginreglna frumvarpsins og koma til skoðunar vegna skattlagningar eiga þann möguleika að fresta þeirri skattlagningu og óska síðan eftir því, ef aðstæður þeirra eru slíkar, að hún verði felld niður. Það geta þeir gert með því að sækja um til ríkisskattstjóra hafi þeir ekki fengið úrlausn sinna mála á grundvelli 3. tölulið 28. gr. eða almennu reglnanna í þessu frumvarpi, að lækka eða fella niður tekjuskattsstofn sinn, enda liggi fyrir, að afloknu þessu tveggja ára frestunartímabili, samkvæmt hlutlægu mati á fjárhagsstöðu skuldara og eftir atvikum maka hans, að eignaaukning hafi orðið lítil eða engin vegna skuldaniðurfærslunnar, menn hafi sem sagt ekkert hagnast á henni svo neinu nemur, að eignir séu litlar sem engar, eða aflahæfi sé verulega skert. Hver ein af þessum ástæðum gefur ríkisskattstjóra tilefni til þess að draga úr eða fella skattlagninguna niður. Það mundi því miður væntanlega eiga við um marga þá sem hv. þingmaður nefndi, vegna þeirrar ógæfu sem þeir rötuðu í.