138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt þar sem er skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda. Það er varla svo að ég hafi lesið fyrirsögn frumvarpsins vegna þess að ég var í ræðustól þangað til klukkuna vantaði korter í eitt í nótt og hafði ekki mikinn tíma til að lesa frumvarpið sem dreift var seint í gærkvöldi. Síðan fór ég á fundi í morgun og var í viðtali og annað slíkt þannig að það hefur ekki unnist mikill tími til að lesa frumvarpið. Ég verð að gera dálítið alvarlega athugasemd við það, frú forseti, að staðan er orðin þannig á þinginu að menn ná ekki einu sinni að lesa frumvörpin sem á að ræða, hvað þá að fara í dýpri pælingar um hvað felst í þeim.

Eins og ég sagði í andsvari áðan er skattlagningu einstaklinga háttað á sérstakan hátt. Ég skil á margan hátt ekki viðbrögð skattyfirvalda þegar talað er um niðurfellingu skulda. Þegar hætt var að draga vexti frá tekjuskatti einstaklinga, sem var mjög ósanngjarnt á þeim tíma vegna þess að þá voru vextir yfirleitt neikvæðir, þá breyttist allt varðandi t.d. niðurfellingu skulda. Hér stendur á þriðju síðu í frumvarpinu:

„Samkvæmt tekjuskattslögum teljast til skattskyldra tekna hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Tekjuákvæði laganna eru því víðtæk og taka til hvers konar verðmæta sem metin verða til fjár, í hvaða formi sem slíkur tekjuauki fellur skattskyldum aðila í hlut.“ — Svo kemur setningin: „Á móti stendur samsvarandi gjaldfærsla hvort heldur er um að ræða tekjuauka hjá lögaðila eða einstaklingi.“

Þetta er bara ekki rétt. Þegar skuld hækkar í verði vegna verðbóta og gengisfalls eða einhvers slíks þá telst það ekki vera gjöld hjá viðkomandi einstaklingi. Það er ekki litið á það, það er ekki til. Þegar þessir sömu vextir eða sú sama gengishækkun er felld niður þá er það að sjálfsögðu ekki tekjur því þetta voru aldrei gjöld. Ef menn ætluðu að fara virkilega í fína skattlagningu með rökrænum hætti, og það var rætt í fjármagnstekjuskattanefndinni frægu sem setti á 10% skatt, þá ættu menn að taka raunvexti, bæði í vaxtagjöldum og vaxtatekjum. Þá værum við komin með fínt kerfi. Þá draga menn að sjálfsögðu öll raunvaxtagjöld frá tekjuskatti. Það má hafa fullan tekjuskatt af því, því þetta eru raunvextir. Þá mundu neikvæðir raunvextir á spariinnlánum, sem í dag eru neikvæðir, koma til frádráttar tekjum. Það er eðlilegt, það er rökrétt. En menn vildu ekki fara þessa leið og mig langar til að segja hæstv. forseta af hverju. Vegna þess að tekjur ríkisins af þeirri skattlagningu hefðu orðið núll og jafnvel mínus. Íslensk heimili eru svo skuldsett að ef menn hefðu mátt draga raunvaxtagjöldin frá, og ef menn hefðu getað dregið tap á innstæðum frá, þá hefðu tekjur ríkissjóðs orðið engar af fjármagnstekjuskattinum. Þess vegna var farin sú leið á sínum tíma að setja 10% flatan skatt og hann gaf ríkissjóði sívaxandi tekjur. Það var nefnilega alls ekki vitlaust.

Inn í dæmið kemur líka hækkun og lækkun á fasteignum. Hvað ætla menn að gera við mann sem keypti fasteign á 40 millj. kr. árið 2004 eða 2005, sem er búin að lækka niður í 20 millj. kr.? Maðurinn hefur orðið fyrir virkilegri eignarýrnun. Á hann ekki að geta dregið tapið frá skatti? Ég er hræddur um að ansi margir yrðu glaðir. Þeir mundu ekki borga skatta í mörg ár ef þetta yrði gert. Þetta er ekki gert. Það er því ekki rétt að á móti standi samsvarandi gjaldfærsla. Það er bara ekki rétt. Þess vegna finnst mér almennt séð að allar niðurfellingar á skuldum eigi að vera skattfrjálsar. Svo kom hæstv. fjármálaráðherra með það yndislega dæmi að einhver maður keypti einbýlishús fyrir 100 millj. kr. og bankastjóri kom til hans og sagði: „Heyrðu, við skulum bara fella lánið niður.“ Ég er ansi hræddur um, frú forseti, að fólk sem leitar til bankanna hafi ekki þessa sögu að segja af bankastjórum. Þeir fella ekki niður lán að óþörfu. Þeir fella ekki niður lán fyrr en allt er komið í óefni og eignir standa ekki undir skuldum o.s.frv. Þá fyrst fella þeir niður lánin. Þeir búa ekki til gífurlegar eignir hjá skuldaranum. Það er að minnsta kosti ekki reynsla þeirra skuldara sem ég hef talað við. Það er einhver önnur saga sem þeir segja af bankastjórunum en þessi fallega jólasaga um að bankastjórinn felldi niður 100 millj. kr. (Gripið fram í.) Ja, þetta var sagt í ræðustól. (Gripið fram í.) Já, ef maður kaupir einbýlishús fyrir 100 millj. kr. og fær svo lánið fellt niður, þá situr hann með eignina og allt er í sómanum. Þetta er ekki reynsla almennings af ágætum bankastjórum landsins. (Gripið fram í: Það var ekki verið að halda því fram ...) Nei, allt í lagi, það er nefnilega þannig að þegar menn fá niðurfelldar skuldir þá er allt komið í hönk og yfirleitt ekkert eftir. Þess vegna held ég að setja mætti lítið ákvæði um þetta í skattalögin. Ég vil þó skoða það, frú forseti, þegar ég er búinn að lesa frumvarpið sem er óskaplega flókið og þegar búið er að ræða þetta í efnahags- og skattanefnd — við höfum ekki nema þrjá daga. Það er hætt við að við fáum ekki mjög marga endurskoðendur á fund okkar til að fara í gegnum þetta á laugardag og sunnudag auk þess sem ég er í nefnd sem á að fjalla um skuldavanda heimilanna. Nú lendi ég í miklum vanda. Hvað á ég að gera? Hvernig á ég að forgangsraða?

Ég hefði viljað að þarna stæði: Niðurfelling á skuldum telst ekki til tekna. Punktur. Það gerist yfirleitt ekki fyrr en allt er komið í hönk að menn fella niður skuldir. Svo ætlar ríkið að koma á eftir ræflinum sem allt er komið í hönk hjá og ætlar að skattleggja það og segir: „Heyrðu vinurinn, tíu milljónir í skatta hérna.“ Nei, það finnst mér ekki vera sanngjarnt og það gengur ekki upp. Ég held að menn eyðileggi ekki neitt voðalega fínt kerfi ef sagt er að niðurfelling skulda teljist ekki til tekna nema um gjafagerning sé að ræða. Þá skulum við bara orða það þannig, þetta er ein setning og við erum búin að leysa vandann. Þetta er miklu einfaldara.

Svo vildi ég gjarnan nefna það að alltaf er verið að tala um að menn vildu hækka skatta á fjármagnstekjur upp í 18% og bera saman við launatekjur. Þeir gleyma því að verðbæturnar vantar. Verðbæturnar eru ekki tekjur. Fólk tapar á innstæðum í dag. Það fær kannski 5% vexti í 7% verðbólgu og tapar. Á sama tíma borgar það 18% af þessum 5% í skatt. Það borgar sem sagt skatt af tapinu. Ég mundi vilja stíga það skref til fulls, sem var rætt í fjármagnstekjuskattanefndinni, að taka upp skattlagningu raunvaxta, bæði í plús og mínus, vaxtagjöld í mínus til frádráttar. Ef hægt er að reikna út raunvexti í vaxtagjöld, þá komi það til frádráttar. Raunvextir á innstæðum komi að fullu til tekna hjá einstaklingum ef þeir eru jákvæðir. Yfirleitt eru þeir þó neikvæðir nema af verðtryggðum reikningum. Þar fá menn enn þá raunverulegar tekjur og eru nafnvextir og verðbætur skattlagðar með 10% eða 18% sem það er komið í núna. Raunvextina mætti hafa inni í tekjuskattinum. En það er hvati til að skulda því menn geta dregið raunvextina frá skatti. Þess vegna var horfið frá því að vera yfirleitt með vaxtagjöld í skattkerfinu. Þau koma skattinum ekkert við. Þess vegna ætti niðurfelling á skuldum heldur ekki að koma skattinum við. Eins og ég sagði þá er ég ekki búinn að lesa þetta dæmi. Mér var bent á að það væri einhver villa í útreikningunum á bls. 4 en ég hef ekki komist í að lesa það.

Varðandi fyrirtækin þá er það undarlegt fyrirtæki sem ekki er með rekstrartap en fær felldar niður skuldir. Það er eitthvað skrýtið. Fyrirtæki fær ekki felldar niður skuldir nema af því að það er í vandræðum. Það eru engin vandræði ef það er ekki rekstrartap, fyrirtækið hlýtur að vera með eitthvert framreiknað rekstrartap sem það getur dregið frá. Þetta er eitthvað sem við þyrftum að skoða mjög vandlega í efnahags- og skattanefnd, en því miður hef ég engan tíma til þess.

Ég held að menn ættu kannski að leysa vandann gagnvart einstaklingum strax með því að segja að allar niðurfellingar á skuldum séu ekki tekjuskattsskyldar nema um gjafagerning sé að ræða og geyma fyrirtækin fram í september vegna þess að það skiptir ekki máli. Þau eru ekki skattskyld fyrr en á næsta ári. Þá borga þau tekjuskattinn og ég held að þau séu flest með framreiknað tap þannig að þetta skiptir ekki stóru máli fyrir fyrirtækin. Það hefur ekki áhrif á ákvörðun þeirra hvort þau samþykkja að taka við niðurfærslu eða ekki. En varðandi einstaklingana ætti þetta að vera einfalt. Öll niðurfelling á skuldum ætti ekki að teljast til tekna í skattalegu tilliti nema um gjafagerning sé að ræða. Ég legg þetta til — þetta er eiginlega breytingartillaga frá mér, samin á staðnum að frumvarpinu ólesnu.