138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:39]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum, um breyting á lögum um tekjuskatt, er gríðarlega mikilvægt en ég verð þó að segja að mér finnst óþægilegt að taka þátt í umræðu um þetta frumvarp við 1. umr. af tveimur ástæðum: Annars vegar vegna þess að í rauninni er ekki hægt að mynda sér að fullu skoðun á einstökum efnisatriðum frumvarpsins nema hafa önnur frumvörp til hliðsjónar, frumvörp sem ég hef ekki séð og mikill meiri hluti þingmanna hefur ekki séð en eru hluti af þeim aðgerðum sem grípa þarf til og við erum öll sammála um að þurfi að gera. Þau liggja núna til meðferðar hjá félags- og tryggingamálanefnd þar sem unnið er hörðum höndum eftir að frumvörp sem bárust frá hæstv. félagsmálaráðherra reyndust ekki þannig úr garði gerð að hægt væri að leggja þau fyrir þingið. Þetta er í fyrsta lagi ástæða þess að mér finnst sérkennilegt að taka þátt í þessari umræðu. Í öðru lagi, eins og ég vék að fyrr í dag í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra, er skammur tími liðinn frá því að þessu frumvarpi sem er gríðarlega mikilvægt var útdeilt. Það var gert seint í gærkvöldi og við þingmenn höfum haft nokkra klukkutíma til að kynna okkur frumvarpið, sum okkar í rauninni engan tíma vegna þess að menn hafa verið bundnir við umræður í þingsal fram á nótt og verið á nefndafundum. Þetta er sérstaklega vont þegar manni virðist það vera orðinn háttur hæstv. ráðherra að taka í rauninni eingöngu þátt í 1. umr. máls eða frumvarps sem þeir leggja fram en vera síðar hvergi nærri við 2. umr., aðalumræðu málsins, þegar það hefur fengið nokkra efnislega umfjöllun í nefnd o.s.frv. Bendi ég þá sérstaklega á hvernig við þingmenn þurftum að vera í margra klukkutíma umræðu um frumvarp til breytinga á lögum um fjármálastofnanir þar sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lét aldrei sjá sig. Ég treysti því að þegar þetta frumvarp fer til efnahags- og viðskiptanefndar og kemur síðan aftur í 2. umr. hafi hæstv. ráðherra tök á því að vera í sal og taka þátt í þeim óhjákvæmilegu umræðum. Ég hygg að það séu sameiginlegir hagsmunir okkar allra vegna þess að um eitt erum við sammála: Þetta frumvarp þarf að ná framgangi í þingsal. Það er bara spurningin hvernig einstök efnisatriði þess verða þegar við afgreiðum það og það er mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra sé viðstaddur, sérstaklega þar sem við höfum ekki tök á því að taka þátt í starfi efnahags- og skattanefndar, og sjái sér fært að taka þátt í 2. umr.

Ég nálgast þetta frumvarp út frá þeirri grunnhugsun að það sé óeðlilegt og ósanngjarnt að ríkissjóður hagnist með beinum hætti á hruninu, hagnist beinlínis á óförum heimila, einstaklinga og fyrirtækja eins og gerist ef þetta frumvarp verður samþykkt óbreytt. Ég held að það sé sanngirnismál og ég trúi ekki öðru en að við getum öll tekið höndum saman um að reyna að tryggja það að ríkissjóður geri sér ekki hrunið að féþúfu ef ég má nota það orð. Það skiptir held ég miklu máli og þess vegna þarf að gera ákveðnar breytingar á því og ég treysti því og trúi að efnahags- og skattanefnd taki það til skoðunar.

Annað sem ég hef líka áhyggjur af varðandi þetta frumvarp er að það er dálítið flókið. Ég óttast að einstaklingar sem bíða auðvitað eftir samþykkt þessa frumvarps, við skulum vera alveg klár á því og við munum auðvitað ganga frá því og hafa sóma af, séu uggandi um sinn hag og stjórnendur fyrirtækja líka eða eigendur fyrirtækja eigi dálítið erfitt með að átta sig á hvað felist í þeirri löggjöf sem verður til ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt. Ég er einn þeirra sem eru þeirrar skoðunar að því einfaldari sem skattalöggjöfin er því betra, því skilvirkari er hún og sanngjarnari. Þó að okkur greini á um hvers konar skattkerfi við viljum hafa á Íslandi held ég að hæstv. fjármálaráðherra sé mér sammála um að því einfaldari löggjöf sem gildir um skattkerfið almennt því betra þannig að öllum sé ljós réttarstaða sín. Ég ætlast til þess að menn fari í gegnum slík atriði þegar kemur að þessu og kannski getum við síðar, þegar við höfum siglt í gegnum þann ólgusjó sem við erum í, átt góðar samræður um það hvernig skattkerfi við viljum yfir höfuð hafa og á hvaða forsendum það sé byggt. Það er auðvitað þannig að við erum að mörgu leyti með meingallað skattkerfi sem við þurfum að huga að og þær breytingar sem gerðar hafa verið hafa því miður ekki verið til þess fallnar að leiðrétta hluti. Vil ég nefna sem dæmi hve einstaklega ranglátt fjármagnstekjuskatturinn, sem nú hefur verið hækkaður, er lagður á og það tengist síðan aftur því sem við erum að ræða um hér. Ég vil vitna í ágæta grein sem birtist í desember sl. í Morgunblaðinu eftir Símon Þór Jónsson, sem er forstöðumaður skattasviðs endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, þar sem hann fjallar einmitt um fjármagnstekjuskattinn. Hann tekur sem dæmi einstakling sem á höfuðstól að fjárhæð 1 milljón sem hann ávaxtar á verðtryggðum sparireikningi og segir, með leyfi forseta:

„Gerum ráð fyrir að hann skuldi 1 millj. kr. bílalán. Gerum ráð fyrir að raunvextir á sparireikningnum á árinu 2006 hafi verið 5%, þ.e. vextir umfram verðbólgu. Það liggur fyrir að verðbólgan á árinu 2006 var 6,95%. Þetta þýðir að nafnvextir einstaklingsins á árinu 2006 voru 119.500 kr. (11,95%) en raunvextir hans voru 50.000 kr. (5%). Mismunurinn að fjárhæð 69.500 kr. eru verðbætur (6,95%). Þar sem fjármagnstekjur eru skattlagðar á grundvelli nafnávöxtunar var einstaklingurinn skattlagður um 10% af 119.500 kr. eða um 11.950 kr. Raunverulegar fjármagnstekjur einstaklingsins af sparnaði sínum voru hins vegar aðeins 50.000 kr. því að kaupmáttur 1 millj. kr. 1. janúar 2006 var sá sami og kaupmáttur 1.069.500 kr. 1. janúar 2007. Í raun var einstaklingurinn því skattlagður um 11.950 kr. af 50.000 kr. fjármagnstekjum sem jafngildir 23,9% raunskattlagningu.“

Þetta eru dæmi sem við þurfum að fara í gegnum og snerta auðvitað það mál sem við erum með. Eins og ég sagði áðan finnst mér erfitt að taka þátt í efnislegri umræðu um jafnmikilvægt frumvarp eftir að hafa fengið örfáa klukkutíma til að kynna mér það. Ég verð að viðurkenna að ég þarf stundum lengri tíma en sumir aðrir til að sitja yfir frumvarpinu með blað og penna og reikna út og átta mig á tölunum. En ég hef mikla fyrirvara á þessu og mér finnst það vera útgangsatriði og ég hefði kosið að menn gætu í þessum hv. sal sammælst um þá sanngirniskröfu að ríkissjóður Íslands muni ekki nýta sér hrunið, fall íslenska fjármálakerfisins, ógæfu einstaklinga og fyrirtækja, í þeim tilgangi að auka tekjur sínar.