138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu, alla vega miðað við hve frumvarpið hefur legið stutt frammi. Mér hefur ekki tekist að lesa það allt í gegn og er ég þó að vinna í því á meðan ég hlusta á ræðurnar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi varðandi stofnbréf í sparisjóðum, hlutabréf sem fólk hefur keypt, og hvernig hann sjái fyrir sér að það verði meðhöndlað. Nú sýnist mér að margir bændur hafi keypt stofnbréf, oft með það að leiðarljósi að styrkja sparisjóðinn sinn í sveitinni. Þeir áttu kannski jörð sem metin var á einhverja tugi milljóna, íbúðarhús, gripahús og gripi og kannski eitthvert sparifé líka en tóku lán til kaupanna á stofnbréfinu. Nú er stofnbréfið horfið, við skulum segja að það hafi verið 50 milljónir, og eftir stendur skuld upp á 50 milljónir sem búið getur fyrirsjáanlega ekki bætt á sig. Hvernig sér hv. þingmaður lausn á þessum vanda og telur hann að þetta frumvarp nái til þess?

Síðan langar mig til að spyrja hv. þingmann að því — nú er þetta mjög flókið, margar greinar og það er verið að taka þetta, skilmálabreyting hitt o.s.frv. — væri ekki miklu einfaldara að segja bara gagnvart einstaklingum að niðurfelling skulda teljist ekki til tekna nema um gjafagerning sé að ræða, svo að það sé bara einfalt? Vextir eru ekki gjöld hjá einstaklingum. Ríkinu koma vextirnir sem menn hafa greitt ekkert við og mikil hækkun á lánum hefur ekki komið til gjalda. Þess vegna er óeðlilegt að telja lækkunina á móti til tekna.