138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum, um skattalega meðferð og eftirgjöf skulda. Ég verð að segja í upphafi máls míns að vinnubrögðin við málið eru mjög sérkennileg. Núna er að byrja 1. umr. og síðan á það að fara í starfshóp sem á að skila af sér tillögum á sunnudaginn. Þetta segir allt um það umhverfi og þau vinnubrögð sem við ástundum á hinu háa Alþingi.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals að það væri skynsamlegt að þeir einstaklingar sem fengju niðurfelldar skuldir í ljósi efnahagshrunsins þyrftu ekki að borga af þeim tekjuskatt. Ég hef ekki náð að lesa frumvarpið mjög mikið, aðeins farið yfir það á hundavaði, en ég hlustaði á hæstv. fjármálaráðherra í andsvörum þar sem hann sagði að það mundi ná til nánast allra, það væri spurning um eitthvað sem stæði hugsanlega út af. Þess vegna skil ég ekki af hverju má ekki segja að niðurfelling skulda hjá einstaklingum og heimilum í landinu sé ekki skattskyld. Það mundi einfalda málið. Þar fyrir utan er óréttlátt að ríkisvaldið ætli að seilast í og skattleggja niðurfellingu skulda hjá einstaklingum. Það er alveg hreint með ólíkindum að það skuli vera gert. Ég velti fyrir mér hugsunarhættinum sem býr þarna að baki. Ég er ekki að gera lítið úr því að lögin þurfa að vera á hreinu. Þetta gæti verið ein grein hjá þverpólitísku nefndinni sem vinnur gott starf. En hún á að skila af sér á sunnudaginn og málið kemur inn í dag. Þetta er alveg hreint með ólíkindum.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að þetta næði nánast til allra og mundi ekki bitna á neinum að menn mundu skattleggja niðurfellingu skulda. Okkur er sagt þetta sem blákaldan veruleika. Ég hugsa líka um þá, virðulegi forseti, sem eiga skuldirnar. Gæti það hugsanlega orðið til þess að draga úr vilja þeirra sem eru að reyna að ná samningum við heimilin og einstaklingana í landinu, sem eru í mjög miklum vanda, að fara fram með eðlilega og réttláta leiðréttingu? Mundu þá fjármálafyrirtækin ekki hugsa: Ja, ef ég felli niður skuldir, þá tekur ríkið það hvort sem er? Gæti þetta ekki gerst? Ég hef miklar áhyggjur af því að fjármálafyrirtækin mundu hugsa og segja að það væri til lítils að fella niður skuldir ef þeir sem fengju þær niðurfelldar mundu síðar þurfa að borga skatt í samræmi við það. Þetta er hlutur sem menn þurfta að skoða mjög vandlega. Því miður hefur komið fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals sem situr í þessum þverpólitíska hópi að hann er þegar á kafi í vinnu. Núna eru fjögur eða fimm mál sem snúa að skuldavanda heimilanna hjá hv. félags- og tryggingamálanefnd. Þar er stærsta málið hin svokallaða greiðsluaðlögun. Það er búið að skrifa algerlega upp á nýtt frumvarpið sem hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, þegar menn eru búnir að leggja fram frumvarp og senda það til umsagnar, eins og tíðkast, hvað gerist ef þarf að skrifa það nánast upp á nýtt. Það þarf að íhuga það vandlega áður en það er samþykkt hvort það fari ekki aftur til umsagnar. Ég er ekki að gera lítið úr starfi og vilja hv. þingmanna sem sitja í félags- og tryggingamálanefnd, alls ekki. Ég er fullviss um að það ágæta fólk sem situr í hv. nefnd leggur sig allt fram til að gera allt sem er til bóta fyrir einstaklingana í landinu.

Hér er fullt af tæknilegum atriðum sem ég hef hvorki kunnáttu né hef haft tíma til að kynna mér eða setja mig inn í. Mér finnst þetta fyrst og fremst snúa að því að við efnahagshrunið tvöfölduðust skuldir einstaklinganna og heimilanna, eins og t.d. erlendu lánin þar sem fólk var með lán í erlendri mynt. Á þeim lánum voru mjög lágir vextir og fjármálafyrirtækin sögðu að þó svo að krónan mundi falla um 10–20%, sem menn álitu þá að gæti hugsanlega gerst í versta falli, yrði niðurstaðan samt sú að það væri hagstæðara og hagkvæmara að vera með erlent lán. Fjölskyldurnar í landinu lenda síðan í því að lánin tvöfaldast. Það kippir öllum grundvelli undan fjölskyldunum. Síðan á að bæta gráu ofan á svart, ef þau fá skuldaniðurfellingu sem ég vil kalla skuldaleiðréttingu á stökkbreyttan höfuðstól, og hugsanlega skattleggja eitthvað af því. Ég er algerlega ósammála þessum vinnubrögðum, virðulegi forseti.

Ég vil líka nefna, virðulegi forseti, að mér finnst að það þurfi að færa leiðréttinguna til þeirra sem urðu fyrir áföllum. Það voru ekki heimilin í landinu sem hrundu yfir bankana, það voru bankarnir sem hrundu yfir heimilin. Það var ekki heimilunum að kenna. Nei, bankarnir hrundu vegna þess að þeir sem stýrðu þeim og áttu fóru mjög óvarlega. Þeir orsökuðu það, örfáir einstaklingar. Ég er ekki að setja alla bankastarfsmenn undir sama hatt. Við sáum vel í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það voru örfáir einstaklingar sem urðu til þess að bankarnir hrundu yfir heimilin í landinu. Það hefur aldrei fengist nein viðurkenning og leiðrétting á því. Ég er ekki að gera lítið úr því sem hefur verið gert, það þarf bara að gera miklu meira.

Ég vil líka nefna, virðulegi forseti, að ég tel að ákveðin skekkja hafi verið gerð þegar nýju bankarnir voru stofnaðir, þ.e. eignasafn gömlu bankanna flutt í nýju bankana. Ef við höldum okkur við skuldavanda heimilanna er óhætt að segja að húsnæðislánin hafi verið færð úr gamla bankanum yfir í þann nýja. Við höfum hins vegar ekki enn fengið svar við því hver niðurfærsla íbúðalánanna á milli gömlu og nýju bankanna var. Það hefur verið sagt að það sé u.þ.b. helmingur. Ég tel, virðulegi forseti, að það hefði átt að skoða það að færa íbúðalánin með þessum afföllum yfir í Íbúðalánasjóð en ekki yfir í nýju bankana þannig að leiðréttingin hefði getað gengið með eðlilegum hætti. Ég set stór spurningarmerki við það, virðulegi forseti.

Árið 2009 var afskaplega slæmt ár fyirr efnahag þjóðarinnar en þessir þrír bankar sem starfa hér á landi skila samt 51 milljarði í hagnað. Ég hugsa að það séu ekki mörg fyrirtæki sem skila miklum hagnaði af rekstri síðasta árs, hvað þá svona tölum. Ég hygg, virðulegi forseti, án þess að ég viti það fyrir víst að það sé einmitt hluti af því að íbúðalánin voru færð úr gamla bankanum yfir í þann nýja. Hugsanlega skilar nýi bankinn ekki til fulls til heimilanna í landinu niðurfærslunni sem gerð var. Á undanförnum dögum hefur komið í ljós, og sagt hefur verið frá því í fréttum, að hluti af þessu sé hugsanlega vaxtamunurinn sem bankarnir taka af fólki með því að hrúga öllu inn í Seðlabankann. Ríkið borgar að sjálfsögðu þá vexti þannig að þetta er katastrófa sem við erum í.

Eins og allir hef ég töluverðar áhyggjur af ástandi íbúa í Húnavatnssýslum sem við þekkjum vel og eru oft rædd í sölum Alþingis. Þeir keyptu á sínum tíma stofnbréf. Ég var hins vegar ánægður með að heyra hæstv. fjármálaráðherra segja áðan að hann telji frumvarpið ekki skattleggja þá sem fá leiðréttingu sinna mála. Það vona ég svo sannarlega og ég fagna orðum ráðherrans. Mér líður hins vegar dálítið illa að heyra hæstv. ráðherra segja að hugsanlega fái einhverjir ekki leiðréttingu. Ég tek undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að það væri eðlilegast að allir sem fengju niðurfellingu skulda þyrftu ekki að borga tekjuskatt nema ef um gjafagjörning væri að ræða. Það væri eðlilegt, þá þyrftu menn ekki að velkjast í vafa með þetta.

Ég vil líka fara yfir það, virðulegi forseti, að í þessu frumvarpi er bæði verið að fjalla um einstaklinga og fyrirtæki. Öll þau fyrirtæki sem fá leiðréttingu á skuldum eru komin að fótum fram eins og einstaklingarnir líka. Það hefði verið hægt að einfalda þetta mál til muna ef þetta hefði ekki verið í frumvarpinu vegna þess að fyrirtækin þurfa ekki að greiða skatt fyrr en á næsta ári, sem sagt núna. Ég tek undir það sem komið hefur fram í umræðunni að það væri óeðlilegt ef fyrirtæki þyrftu ekki að borga skatt af niðurfellingunni sem þau gætu hugsanlega fært sem tap á milli ára. Menn þurfa að skoða það mjög vel vegna þess að það er allt annað að vera í fyrirtækjarekstri en einstaklingsrekstri. Fyrirtækin geta safnað upp tapi ef þannig árar og notað það til frádráttar skatti þegar betur árar.

Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, að varðandi skattalega meðferð og eftirgjöf skulda finnst mér í raun og veru standa upp á okkur að einfalda málið til muna. Við þyrftum ekkert að hugsa um þetta því að eins og ég sagði fyrr í ræðunni kom fram hjá hæstv. ráðherra að nánast allir mundu sleppa við að greiða skatta af niðurfellingu skulda. Það væri mun auðveldara og skilvirkara ef aðeins stæðu eftir allir þeir einstaklingar sem fá eftirgjöf á skuldum, sem ég kalla bara leiðréttingu í ljósi efnahagshrunsins, og þyrftu ekki að greiða skatta af henni. Ég hef líka miklar áhyggjur af því að fjármálastofnanirnar sjái ekki ávinning í því að fella niður skuldir einstaklinga eða fjölskyldna af því að ríkið muni skattleggja fólkið. Því set ég spurningarmerki við þetta allt saman og tel að hægt væri að einfalda málið til muna.