138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[18:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hér hefur verið. Ég hef áður beðist velvirðingar á því að þetta mál sé seint fram komið og útskýrði hvers vegna það væri. Það fór mikill tími í að reyna að vinna þetta þannig að náð væri sem best utan um málið, og samráð við skattasérfræðinga á sviði skattaréttar, ríkisskattstjóra og ýmsa fleiri aðila tók sinn tíma. Það skýrir það í aðalatriðum.

Sumir hafa haldið því fram að málið sé flókið. Það má alveg eins halda því fram að það sé mjög einfalt. Almennt er skattaréttur flókinn þegar hann er skoðaður í heild sinni og það á sér málefnalegar ástæður. Það eru mörg og mismunandi sjónarmið sem valda því að í útfærslu eru skattalög viðamiklir bálkar, það þarf að taka á tilvikum og hafa þau eins skýr og hægt er. Ég þekki ekkert land sem ekki lendir í því smátt og smátt að skattarétturinn verði nokkuð flókinn eftir því sem hann þróast, m.a. vegna þess að menn eru að reyna að ná fram mörgum og sumpart misvísandi markmiðum í senn um jöfnuð og sanngirni í þessum efnum þó að einfaldleikasjónarmiðið sé að sjálfsögðu á sínum stað.

Ég segi að málið sé einfalt vegna þess að það er algerlega skýrt tekið fram í þeim lögum hvað er undanþegið og ekki yfir höfuð andlag skattlagningar þegar um þessa skuldaniðurfellingu er að ræða. Það gildir um allar skilmálabreytingar, allt sem er skilmálabreyting í venjulegum skilningi er sjálfkrafa undanþegið og kemur ekki við sögu svo sem eins og breyting úr lánum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur með eðlilegum kjörum.

Það er sömuleiðis algerlega skýrt og í gadda slegið í frumvarpstextanum sjálfum að skuldaúrræðin hin lögbundnu og hin almennu sem útfærð hafa verið og í boði eru í samræmi við verklagsreglur og/eða lög eru undanþegin, þ.e. sé um leiðréttingu að ræða á skuldum sem eru gerð í tengslum við sérstaka skuldaaðlögun, sjálfvirka greiðslujöfnun eða tímabundna greiðsluaðlögun þá er það undanþegið, sömuleiðis nauðasamningar og annað í þeim dúr.

Frumvarpið tekur á þeim aðgerðum sem eru þar fyrir utan og setur ákveðinn ramma um þær. Af hverju er frumvarp nauðsynlegt? Jú, það er vegna þess, frú forseti, sem menn hafa kannski aðeins horft fram hjá í þessari umræðu á köflum, að meginregla skatta í þessu samhengi, 7. gr. tekjuskattslaganna, hljóðar einfaldlega upp á það að til skattskyldra tekna skuli teljast hvers konar gæði, arfur, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast — hér er ég að tala um einstaklingana — og metin verða til peningaverðs. Skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Á grundvelli þessarar meginreglu, þessa almenna ákvæðis, er sú regla dregin að eftirgjöf skulda teljist til skattskyldra tekna. Þetta er grundvallarregla. Þess vegna þarf í tengslum við þessar viðamiklu aðgerðir sem nú eru í gangi og fram undan að kveða á um það í hvaða mæli og í hvaða tilfellum þessari almennu grundvallarreglu er vikið til hliðar, hversu víðtækar undanþágur eru frá henni veittar. Ég held að það væri óráðlegt að henda henni fyrir borð með öllu og það er það sem þetta mál snýst um.

Það er rétt sem ég hef sagt, þetta frumvarp útfærir þetta á þann hátt að það tekur sjálfkrafa til yfirgnæfandi meiri hluta þeirra tilvika sem í hlut eiga í öllum hinum almennu aðgerðum sem núna eru í gangi þar sem tekið er á skuldum heimila vegna fasteignaveðlána, bílalána o.s.frv. Það er hins vegar til staðar áfram, umfram þessi mörk sem frumvarpið skilgreinir, þessi almenna regla og til hennar verður þá gripið eftir atvikum þegar við á ef um eitthvert eðlilegt skattaandlag er að ræða. Þá hafa menn sagt: Já, ef um hreinar gjafir eða hreina örlætisgerninga er að ræða eru menn að því er virðist inni á því að þá sé rétt að skattlagning komi við sögu. Í raun og veru er það það sem þetta snýst um. Það er útfært og skilgreint nokkuð nákvæmt í hvaða tilvikum komi til álita að skattaandlag sé til staðar. Ef menn telja stöðu sína ekki í samræmi við það þá geta menn leitað með sín mál til ríkisskattstjóra og látið gera úttekt á þeirri stöðu. Var um einhvern ávinning að ræða, var um raunverulega eignamyndun að ræða vegna niðurfellingarinnar eða var hún bara leiðrétting? Eru menn í aðstöðu til þess að greiða skattinn, hafa þeir aflahæfi til þess o.s.frv.?

Ég leyfi mér að fullyrða að það er búið að reyna að ná eins vel utan um þetta og nokkur kostur er og leggja í það mikla vinnu. Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér það og ég tel að frumvarpið bjóði líka upp á úrræði til að takast á við hluti sem við vitum að eru til staðar þar sem t.d. bændur hafa skuldsett sig illilega til að kaupa stofnfjárbréf sem eru glötuð. Þeir eru með það inni í sínu persónulega bókhaldi, sínum fjárhag, skuldir jafnvel langt umfram eignir og langt umfram greiðslugetu og þá er ekkert skattaandlag. Þá eiga við aðstæður 3. mgr. 28. gr. og frumvarpið útfærir hvaða viðmiðanir eiga við. Það er því líka lögskýring og leiðbeining til ríkisskattstjóra um það hvað skuli lagt til grundvallar matinu á því hvort skattaandlagið sé til staðar. Ég held að menn eigi að treysta einfaldlega á það að framkvæmdin verði síðan með þessum sanngjarna hætti.

Ég held að það sé ekki ágreiningur um grundvallarhugsunina sem hér er á ferðinni. Það er ekki ætlun okkar að fara að gera það að skattaandlagi að fólk fái úrlausn sinna mála með þessum almennu aðgerðum og með sanngjörnum hætti í tengslum við þessar breytingar. Ég bind vonir við að þegar menn skoða þetta betur sjái þeir að hér er verið að reyna að gera eins vel og hægt er.