138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Þingmaðurinn bendir réttilega á að það væri æskilegra að sameina þær nefndir sem á að skipa og eiga að skoða fjármálamarkaðinn til að sú skoðun verði heildstæðari og til að við fáum betri löggjöf. Ég flutti hér nokkrar ræður við 2. umr. og benti m.a. á að vegna aðildar okkar að nokkrum alþjóðastofnunum gæti verið upplagt að biðja um heildstæða úttekt á reglugerðarumhverfinu á Íslandi í sambandi við fjármálamarkaði. Jafnframt man ég eftir að mér varð tíðrætt um að við reyndum að setja þetta í eitthvert alþjóðlegt samhengi þannig að við værum ekki að heimasmíða einhverjar reglur og kannski einangra okkur þannig frá fjármálamörkuðum heimsins. Gæti hv. þingmaður sagt mér hvort einhver umræða hafi verið um þetta í nefndinni eða var litið algjörlega fram hjá þessum hlutum?