138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:59]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ágætisútskýringar í framhaldi af spurningum mínum. Mig langar til að fylgja þessu aðeins eftir. Þætti þingmanninum ekki bráðsniðug hugmynd að við fengjum OECD t.d. til þess að gera allsherjarúttekt? Hinum hv. nefndarmönnunum til friðþægingar læt ég þess getið að það er að kostnaðarlausu fyrir Íslendinga. Þetta gæti verið gríðarlega mikill efniviður fyrir nefndina sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ætlar að skipa til að við megum gera þessa löggjöf sem best úr garði. Hvað finnst hv. þingmanni um að við reynum að hafa áhrif á bræður okkar og systur í hv. viðskiptanefnd og reynum að leiða þeim þetta fyrir sjónir eins og okkur tókst að leiða þeim fyrir sjónir að það væri æskilegt að skoða þetta í samhengi?