138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og vinnu á vettvangi viðskiptanefndar og þakka hlý orð í minn garð og formanns. Mig langar bara að bregðast við tvennu sem fram kom í ræðu hennar.

Ég tek heils hugar undir þær áhyggjur sem hún varpar hér fram um styrk Fjármálaeftirlitsins til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem á því hvíla en við leggjum hér auknar skyldur á herðar þess. Mig langar hins vegar að fjalla eilítið í andsvari mínu um hugmynd hv. þingmanns um frekari aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Þetta var ítarlega rætt í nefndinni en það er engu að síður skoðun meiri hlutans að að svo komnu máli eigi ekki að ganga lengra en hér er gert. Við höfum tekið á fjölmörgum atriðum sem hafa stungið í augu almennings og eftirlitsaðila um náið samstarf fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, þeim ágöllum sem hin bandarísku lög, Glass-Steagall lögin, tóku á á sínum tíma, t.d. með banni við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum og strangari reglum um lánveitingar og viðskipti hvers konar tengdra aðila.

Þá ber einnig að geta þess að ekkert þeirra landa sem lúta sambærilegu regluverki og er hérlendis hefur lagt fram tillögur í þá átt að frekar eigi að stefna að aðskilnaði, en meiri hluti nefndarinnar er þeirrar skoðunar að rétt sé hins vegar að fylgjast náið og vel með þróun lagasetningar erlendis á þessu sviði og draga þá lærdóm af því sem aðrir kunna að standa frammi fyrir rétt eins og við höfum gert.

Fram kemur í áliti okkar að skipa beri nefnd sem skoði þessi atriði sérstaklega og mín skoðun er að þetta hljóti að vera eitt mikilvægasta málið sem sú nefnd komi til með að fjalla um.