138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

loftferðir.

567. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Nefndarálitið er á þskj. 1249 og þar kemur fram að nefndin hefur fengið á fund til sín fjölmarga aðila og farið yfir umsagnir aðila um málið.

Tilgangur þessa frumvarps er tvíþættur. Annars vegar er ætlunin að gera breytingar á gildandi loftferðalögum þannig að íslenska ríkið uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að Alþjóðaflugmálastofnuninni og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Er þannig stefnt að því að íslenskt lagaumhverfi endurspegli þær breytingar sem orðið hafa á hinu alþjóðlega. Hins vegar er tilgangur frumvarpsins að endurspegla þá áherslubreytingu sem orðið hefur hérlendis sem erlendis varðandi mikilvægi neytendasjónarmiða í flugsamgöngum.

Á fundum nefndarinnar var frumvarpið rætt og einkum það álitamál hvort frumvarpið endurspeglaði nægilega anda þeirra Evrópugerða sem því er ætlað að innleiða. Um þetta komu fram skiptar skoðanir, ekki síst í því ljósi að með frumvarpinu fær Flugmálastjórn Íslands auknar heimildir til eftirlits og eftirfylgni við ákvarðanir sínar. Skilningur nefndarinnar er sá að í þeim Evrópugerðum sem liggja til grundvallar gerð frumvarpsins sé stefnt að því að í Evrópu gildi sambærilegar reglur um flugmál, um gjaldtöku í flugvallarstarfsemi, öryggi í flugi og umhverfisvernd.

Það sjónarmið kom fram hjá umsagnaraðilum að eðlilegt væri að vald til að ákvarða um gildi gjaldskráa rekstraraðila flugvalla yrði sett í hendur annarra aðila en Flugmálastjórnar Íslands en yrði ella áfram í höndum ráðherra. Skilningur nefndarinnar er sá að slík útfærsla kynni að leiða til ósamræmis við ákvæði þeirrar Evrópugerðar sem verið er að innleiða með frumvarpinu.

Nefndin ræddi rökin fyrir því að setja eftirlit með verðlagningu aðila er starfa á sviði flugmála í hendur Flugmálastjórn Íslands. Skilningur nefndarinnar er sá að væri framkvæmd slíks eftirlits falin öðru stjórnvaldi en Flugmálastjórn Íslands kynni það að útheimta mikla og kostnaðarsama þekkingaröflun þess stjórnvalds. Einnig hefur nefndin litið til þess að eftirlit með birtingu verðupplýsinga lýtur ekki aðeins að vernd neytenda heldur einnig flugrekstraraðila.

Loks leggur nefndin til nokkrar tæknilegar breytingar á greinum frumvarpsins sem hér segir:

1. Við 1. gr. Tilvísanirnar „7. mgr. 28. gr.“ og „2. mgr. 146. gr.“ falli brott, en þar er um orðalagsbreytingar að ræða.

2. Í stað orðsins „fjárhæðarinnar“ í 10. gr. og a–c-lið 12. gr. komi: tölunnar.

3. Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 102. gr.“ í 10. gr. komi: 2. og 3. mgr. 102. gr. sem er leiðrétting á frumvarpinu.

4. Í stað orðanna „Viðbótar valkvæður kostnaður“ í lokamálslið 1. efnismgr. 13. gr. komi: Valkvæður viðbótarkostnaður. Er hér um að ræða orðalagsbreytingar og lagfæringar á orðalagi en ekki efnislegar breytingar.

5. Á eftir 16. gr. komi ný grein, svohljóðandi: 2. mgr. 146. gr. laganna orðast svo: Ráðherra skal setja reglugerð, sbr. 1. mgr., sem felur í sér innleiðingu þeirra reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins er varða stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu í íslenskan rétt. Er hér um að ræða reglugerðarheimild í lögunum til handa ráðherra.

Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa aðrir nefndarmenn, Björn Valur Gíslason, Róbert Marshall, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ásbjörn Óttarsson.