138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni lítið mál en mikilvægt. Það lýtur að eftirliti með gjaldeyrisviðskiptum en sem kunnugt er búum við nú á Íslandi við gjaldeyrishöft. Slík höft kalla á það að með þeim sé eftirlit því að það er umtalsverð freisting fyrir ýmsa að leita leiða fram hjá slíkum höftum. Eftirlit með þessu hefur verið hjá Fjármálaeftirlitinu til þessa. Hér er verið að flytja eftirlitið til Seðlabankans sem er í góðum færum til að halda utan um það og ætti þá að gefa Fjármálaeftirlitinu sömuleiðis tækifæri til þess að einbeita sér enn frekar að þeim fjölmörgu eftirlitsverkefnum sem á þeirra könnu eru.

Hv. efnahags- og skattanefnd gerir engar breytingartillögur við málið, telur að það sé vel búið eins og það er og styður að það verði gert að lögum.