138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

skuldavandi heimilanna.

[12:14]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Nýjar tölur sem fram hafa komið um stöðu skuldavanda heimilanna sýna vissulega alvarlega stöðu. Það er þó ákveðin samfella í öllum þessum tölum. Fjöldinn er nokkuð jafn, sama hverjir það eru sem meta stöðuna.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það þarf almennar aðgerðir til, rétt eins og sértækar. Við höfum gripið til almennra aðgerða með greiðslujöfnun sem gerir fólki kleift að greiða í samræmi við það sem lagt var upp með í upphafi en þurfa ekki að þola ótakmarkaða lengingu lána á móti. Við erum núna með frumvarp liggjandi í þinginu um almenna aðgerð til að létta á greiðsluvanda vegna bílalána sem er virkilega mikilvægt atriði og líklega sú aðgerð sem getur breytt mestu fyrir heimili í greiðsluvanda. Hv. þingmaður nefnir réttilega ýmsa ágalla á talnaefni Seðlabankans en það má líka nefna ýmis önnur atriði sem ég hef ekki tíma til að fara út í hér en benda til þess að fjöldinn sé ofmetinn. Þetta vex nokkuð á.

Aðalatriðið er að einnig liggur fyrir þinginu frumvarp frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um nýja rannsókn á skuldastöðu heimilanna sem verður lifandi með okkur næstu þrjú árin. Þannig getum við stöðugt haft nokkurn veginn dagréttar upplýsingar um þróunina frá einum ársfjórðungi til annars. Það er mjög mikilvægt að það mál komist í gegn. Það sem við þurfum að gera núna er að tryggja framgang þeirra miklu umbótamála sem eru til meðferðar í þinginu hratt og örugglega. Auðvitað mun fækka í þessum hópi því það er mjög vont fyrir okkur að tala alltaf um sama vandamálið. Við skulum flýta okkur að koma þessum málum í gegn og sjá hvernig staðan breytist við þær aðgerðir sem frumvörpin gera okkur kleift að ráðast í. Það hlýtur að verða okkar fyrsta verkefni.