138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

skuldavandi heimilanna.

[12:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Þessar sífelldu rannsóknir og skýrsluskrif ríkisstjórnarinnar væru ágæt fyrir sitt leyti ef þau skiluðu einhverjum aðgerðum. En ef sama viðmið væri notað í annars konar björgunaraðgerðum sér maður fyrir sér skip sem er að sökkva og svo mætir björgunarbáturinn, ekki til að bjarga mönnum heldur til að spyrja spurninga um það hvernig megi hugsanlega bæta björgunarmál í framtíðinni. Þetta gengur ekki þegar við stöndum frammi fyrir algjöru neyðarástandi sem verður ekki hægt að fresta lengur frá og með október á þessu ári.

Þess vegna held ég að ekki veiti af því að hæstv. félagsmálaráðherra svari því hvernig eigi að bregðast við í október á þessu ári þegar ekki verður lengur, samkvæmt yfirlýsingu ráðherra ríkisstjórnarinnar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um neinar frestanir að ræða. Það verða engar frekari niðurfellingar eða frystingar lána. Hvað verður þá gert? Ekki ætlar hæstv. ráðherra að standa að því að setja fjöldann allan af heimilum á nauðungaruppboð?

Og hvað er með þessa lækkun bílalána, var það ekki eftir næstu helgi sem átti að ráðast í hana?