138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

skuldavandi heimilanna.

[12:17]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það þýðir lítið að skamma ríkisstjórnina fyrir framgang mála í þinginu. Það skiptir máli að málin komist í gegnum þingnefndir. Það er unnið í þessum málum, það skiptir máli að afgreiða þau hratt og örugglega (Gripið fram í.) og ég vænti góðs samstarfs við stjórnarandstöðuna um að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég sé fyrir mér að í haust verði staðan sú að embætti umboðsmanns skuldara geti tekið á alvarlegum skuldavanda mikils fjölda heimila og komið þeim sem eru í mestum vanda í skjól. Það er uppleggið núna. Við erum að reyna að búa til nýtt hvatakerfi til að þvinga kröfuhafa í raunverulega samninga um raunhæfa skuldabyrði fólks. Það hlýtur að vera markmið okkar allra. Það hlýtur líka að vera markmið okkar að ætla bönkum að taka þátt í því að færa skuldastöðu fólks að því sem fólk getur staðið undir. Það er markmið okkar að tryggja að eftir standi samfélag þar sem skuldastaðan er í samræmi við greiðslugetu fólks. Það hlýtur að vera verkefnið, til þess þurfa þau frumvörp sem liggja í þinginu núna (Forseti hringir.) að komast í gegn og verða að lögum sem allra fyrst.