138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

aðild Íslands að ESB.

[12:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Til að rifja upp með hæstv. ráðherra minnir mig að febrúarbyltingin hafi verið í janúar þannig að þetta er væntanlega janúarbylting, ekki satt? [Hlátur í þingsal.]

Hins vegar langar mig að segja við hæstv. ráðherra að að sjálfsögðu er þýska þingið reiðubúið að liðka fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið þegar það kemur fram, m.a. í viðtalinu við þennan sérfræðing frá Þýskalandi, að Þjóðverjar horfa á náttúruauðlindirnar og á fiskinn, þeir horfa á það sem við höfum fram að færa, líka legu landsins út af norðurskautinu. Af hverju í ósköpunum nýtum við ekki þessar auðlindir og þau tækifæri sjálf á okkar eigin forsendum? Hæstv. ráðherra vill væntanlega að við gefum þetta frá okkur — fyrir eitthvað. Hvað vill hann fá í staðinn? Hver eru rökin fyrir því að halda áfram þessu brölti með Evrópusambandið? Varla er það evran eins og staðan er í dag, það getur ekki verið. Varla eru allaballarnir orðnir svo gleymnir að þeir séu búnir að gleyma því út á hvað sjálfstæði Íslands gengur.