138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

svar við fyrirspurn.

[12:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í 6. mgr. 49. gr. þingskapalaga segir, með leyfi forseta:

„Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð.“

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars sl. hvatti hæstv. forsætisráðherra fólk til að sitja heima og nýta ekki sinn lýðræðislega rétt til að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni vegna þess að langtum betri samningur lægi fyrir en var í því frumvarpi sem til afgreiðslu var. Það eru þó nokkrar vikur síðan ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um það hvað fælist í þessum samningi frá Hollendingum og Bretum. Enn hefur ekkert svar borist, frú forseti, og bið ég því hæstv. forseta að hlutast til um að hæstv. forsætisráðherra svari þessari fyrirspurn nú áður en þingmenn fara heim í sumarfrí.