138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

svar við fyrirspurn.

[12:44]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vísa til ummæla hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um umfjöllun í iðnaðarnefnd um frumvarpið um afnám vatnalaganna. Ég tel að í meðförum nefndarinnar höfum við farið mjög vandlega og ítarlega yfir, ekki bara þetta frumvarp heldur líka sögu vatnalöggjafar á Íslandi frá þjóðveldisöld og hef ekki heyrt annað en að nefndarmenn væru almennt mjög ánægðir með þá umfjöllun. Reyndar var sérstaklega tekið tillit til óska hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um málsmeðferðina. Hann hafði óskað eftir því að tiltekinn aðili, Karl Axelsson, sem er einn af höfundum vatnalagafrumvarpsins frá 2006, kæmi til fundar við nefndina. Við buðum honum þrívegis að mæta en hann átti ekki kost á því. Síðan vita menn að dagskrá þingsins er með þeim hætti að þingstörfum á að ljúka á þriðjudaginn og það væri fullkomið ábyrgðarleysi af nefndinni að senda frumvarpið ekki inn og ljúka (Forseti hringir.) umfjöllun um það á þessum tímapunkti. Þetta frumvarp verður að afgreiða eins og við þekkjum svo þessi umdeildu og alræmdu vatnalög taki ekki gildi 1. júlí (Forseti hringir.) nk.