138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[13:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem þingmenn hafa sagt hér, að hæstv. umhverfisráðherra þurfi mun frekar að endurskoða verklagið hjá sér en við að lengja fresti.

Það eru tvö sveitarfélög í mínu kjördæmi sem hafa einmitt átt í miklum erfiðleikum með hæstv. umhverfisráðherra og þær tafir sem hún hefur staðið fyrir og hennar ráðuneyti. Því miður er líka hægt að benda á þá ráðherra sem hafa verið þar á undan. Ég held að annað sveitarfélagið sé núna búið að kæra umhverfisráðherra og ég held að það stefni í það að hitt sveitarfélagið muni mjög fljótlega skila inn kæru líka. Þetta þurfum við að endurskoða en ekki veita hæstv. ráðherra enn þá lengri fresti svo að hún geti tafið málin enn frekar. (Gripið fram í.)