138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég mun gera hér grein fyrir atkvæði mínu og okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd. Þetta skref sem við stígum með þessari ákvörðun er eitt af mörgum sem þarf að taka áður en við tökum endanlega afstöðu til þess hvort byggja eigi nýjan Landspítala. Þetta skref er hins vegar nauðsynlegt til að halda áfram með verkið og koma af stað þeirri atvinnuuppbyggingu sem er mjög nauðsynlegt á þessu landi í dag. Ég vil fyrst og fremst ítreka það að í meðförum fjárlaganefndar var gerð sú breyting á að málið kæmi hér aftur inn til endanlegrar afgreiðslu áður en í verkefnið yrði farið. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd styðjum heils hugar þetta mál.