138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[13:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér sé komin til lokaafgreiðslu bygging nýs Landspítala, þ.e. stofnun hlutafélags til að annast undirbúning að framkvæmdum. Ég vil taka það sérstaklega fram af því að það hefur verið um það umræða, eins og oft verður þegar teknar eru slíkar ákvarðanir, að þetta muni á einhvern hátt hafa áhrif á fjárlagagerð eða þá erfiðleika sem við eigum í varðandi niðurskurð í ríkisbúskapnum að svo er ekki. Það er þannig búið um málið að það mun verða tekin ákvörðun um það í lok árs 2011 eða 2012 hvort farið verður í framkvæmdina og þá þarf að liggja fyrir að leigan fyrir þessa byggingu verði greidd af þeim ávinningi sem fæst með því að sameina starfsemina á einn stað. Ég taldi mikilvægt að þetta kæmi fram.

Ég styð þessa byggingu heils hugar og segi já og fagna því að hér verði enn betur búið að sjúklingum. Ég tek undir að hér hefur verið frábær heilbrigðisþjónusta en hér (Forseti hringir.) verður enn betur búið að starfsfólki og sjúklingum og aðstandendum.