138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[13:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mörgum þingmönnum er mjög annt um mannréttindi. Ég minnist þess að þegar öryrkjadómurinn og kvótadómurinn voru hér til umræðu tóku margir til máls og minntust á mannréttindi. Þáverandi hæstv. ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins brást mjög hart og snarpt við og leiðrétti lögin.

Hér erum við hins vegar að fjalla um frumvarp sem flutt er af ríkisstjórninni þar sem lagt er til að fyrirtækjum sem ekki eru félagar í Samtökum atvinnulífsins sé gert skylt að greiða í einhverja sjóði þar sem enginn veit hvað á að gera við peningana og engar reglur eru til um þá og upphæðin ekki ákveðin.

Mannréttindadómstóll Evrópu felldi dóm í apríl um að iðnaðarmálagjaldið, sem samt er ákveðin prósenta og hefur ákveðinn tilgang, bryti í bága við mannréttindi. Þó að hv. þm. Atli Gíslason hafi hér fellt þann dóm að þetta brjóti ekki mannréttindi sagði Mannréttindadómstóll Evrópu annað og ég segi nei við þessum mannréttindabrotum.