138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[13:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Ef ég gæti fengið hljóð fyrir hv. þm. Merði Árnasyni. Er hv. þingmaður búinn? (MÁ: Nei.)

(Forseti (UBK): Forseti vill vinsamlegast beina því til viðstaddra hv. þingmanna að gefa hljóð í salnum og gefa hv. þingmanni ráðrúm til þess að tjá sig í ræðustóli.)

Virðulegi forseti. Hér eru komin til afgreiðslu lokafjárlög og ekki standa efni til annars en að afgreiða þau frá þinginu og samþykkja. En málefni Seðlabankans hafa verið gerð að umtalsefni og það sem afskrifa þarf vegna Seðlabankans eftir hrunið. Í þeirri umræðu er rétt að menn hafi til hliðsjónar allt það sem gert var hér á þinginu, t.d. það að veita innstæðueigendum forgang í eignir þrotabúa gömlu landsbankanna. Það var ákvörðun sem við tókum hér á þinginu sjálfu, það var ákvörðun sem varð þess valdandi að það tap sem hér hefur verið gert að umtalsefni varð mörgum tugum milljarða hærra en ella hefði orðið. Þetta er nokkuð sem menn vilja gjarnan hafa í umræðunni af ýmsum pólitískum ástæðum en kjósa alltaf að líta fram hjá þessari augljósu staðreynd. Þetta fannst mér nauðsynlegt að rifja upp og benda á fyrst menn vilja gera það að sérstöku umtalsefni við afgreiðslu þessa máls.