138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[13:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hér eru komin til afgreiðslu lokafjárlög fyrir árið 2008, hrunárið, og ekki er annað að gera en að horfast í augu við þær staðreyndir sem þessi lokafjárlög birta okkur en þær eru dapurlegar. Vonandi verður þetta ljótasti efnahagsreikningur sem íslenska lýðveldið sýnir fyrr og síðar í sögu sinni en hann er dapurlegur, halli upp á á þriðja hundrað milljarða kr. sem bókfæra verður fyrst og fremst vegna taps sem varð í hruninu og vegur þar þyngst tapið sem varð í tæknilegu gjaldþroti Seðlabankans og tap vegna lífeyrisskuldbindinga.

Sem betur fer erum við komin langan veg frá þessu ári og allar niðurstöðutölur sem fram undan eru eru til muna betri. En það er okkur hollt til áminningar um það sem þarna gerðist að hafa þessa tölu jafnan í huga þegar við erum að takast hér á um milljónir eða tugi milljóna til þarfra verkefna, þarna brunnu upp á einu hausti á þriðja hundrað milljarðar kr.