138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[13:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp sem á að auðvelda bönkum og sérstaklega Landsbankanum að flytja veðréttindi fram fyrir innstæðutryggingar. Það er nokkuð sem viðkomandi fjármálastofnun er heimilt að gera núna og hún mun örugglega gera bæði í nútíð og framtíð en þetta mun auðvelda þann gjörning líka. Þetta er gert í tengslum við uppgjör gamla og Nýja Landsbankans sem skrifað var undir 15. desember á síðasta ári. Það sem er sérstakt við þetta mál er að þegar það var lagt fram var ekki upplýst um það, hvorki þegar skrifað var undir viðkomandi samkomulag né í nefndinni. Upplýsingarnar komu fram í meðförum nefndarinnar og verður að segjast eins og er að það er alveg furðulegt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi ekki upplýst um tilurð þessa máls.

Við sjálfstæðismenn munum ekki greiða atkvæði með málinu og vonumst til þess að þurfa ekki að sjá aftur vinnubrögð sem þessi hér (Forseti hringir.) á hv. þingi.