138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[13:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp er sjálfsagt tæknilegt frumvarp sem auðveldar einkum og sér í lagi uppgjörið milli gamla og Nýja Landsbankans. Það hefur engin þau áhrif sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa haldið fram, þar er um grundvallarmisskilning að ræða. Hér er ekki verið að taka undan innstæðum í hugsanlegu þroti bankans síðar eignir sem bankinn á. Uppgjörið snýst um það að færðar voru yfir meiri eignir en skuldir þegar Nýi Landsbankinn var stofnaður og einnig hinir bankarnir að hluta til. Það uppgjör þarf að fara fram og þær umframeignir þarf að endurgreiða. Það er gert með skuldabréfi frá nýja bankanum til hins gamla, og til tryggingar greiðslum á því skuldabréfi eru ákveðnar eignir. Þegar málið er skoðað efnislega ofan í kjölinn er það fullkomlega eðlilegt, það er hluti af þessum samningum sem tókust sem betur fer um uppgjör milli gömlu og nýju bankanna. Þetta hefur engin áhrif á framtíðarstöðu innstæðna í þessum bönkum enda aldrei gerlegt að láta eignir sem bankinn átti ekki vera til tryggingar innstæðum á komandi árum. Það er dapurlegt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í: Við erum ekkert ...) sem ættu nú að láta [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.) ábyrgð sína á atburðunum sem þarna gerðust og neyðarlögunum (Forseti hringir.) standa nær sér en ætla má af málflutningi sumra þeirra hérna.