138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir ræddi þá grundvallarspurningu sem kom fram í umfjöllun Morgunblaðsins um hvort málið sé þannig vaxið að þegar bankar og fjármálastofnanir hagnist fari sá hagnaður til eigenda en þegar viðkomandi fjármálastofnun tapi beri skattgreiðendur tapið. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er mjög athyglisverð grein eftir Mark J. Flannery sem er með hagfræðigráður frá háskólunum Princeton og Yale í Bandaríkjunum og hefur verið prófessor í fjármálum við háskólann í Flórída-háskóla frá árinu 1989, ásamt fleiri gráðum og ferli sem ég ætla ekki að fara í hér. Flannery skrifaði stutta grein, sem ég hvet alla til að lesa, en hún er á bls. 55–56 í rannsóknarskýrslunni. Ég ætla að lesa örstuttan kafla úr þessari annars stuttu grein. Með leyfi forseta segir í kaflanum „Mikilvægi eftirlits stjórnvalda með fjármálaþjónustu“:

„Í nær öllum löndum gilda strangar reglur um bankastarfsemi. Að hluta til endurspegla slíkar reglur formlega og óformlega stefnu stjórnvalda sem kjósa að styrkja banka í fjárhagserfiðleikum í stað þess að láta þá verða gjaldþrota. Flestar reglur byggjast á þeirri trú að stjórnvöld muni ekki leyfa bönkum sínum að falla og gera innlánseigendum að bera tapið. Slíkar „ætlaðar ríkisábyrgðir“ gera bönkum kleift að fá lánað fjármagn á mun lægri vöxtum en ella, þar sem ekki er tekið tillit til áhættu þeirra. Bankarnir hafa því óeðlilegan hvata til að taka mikla áhættu því þegar vel gengur hagnast hluthafarnir en þegar illa gengur munu stjórnvöld sennilega taka á sig hluta tapsins. Stjórnvöld vilja því takmarka áhættutöku banka, í því skyni að vernda skattgreiðendur og draga úr bjögun á fjármálalegum hvötum. Slíkar aðgerðir nefnast „varúðarreglur“ (e. prudential regulation) og slíkar reglur geta gjarnan takmarkað arðsemi banka.“

Virðulegi forseti. Þegar við fjöllum um fjármálaumhverfið erum við í raun að fjalla um þetta. Þetta er einn þáttur þess. Við erum að fara yfir í hvaða regluverki við viljum að bankarnir starfi og við getum ekki gert það án þess að líta á heildarsamhengið. Við getum ekki bara tekið fyrir lög um fjármálafyrirtæki og ekki skoðað t.d. innstæðutryggingarkerfið. Það er ástæða fyrir því að stjórnvöld hafa farið þá leið að vernda innstæður. Það er einfaldlega til þess að hafa traust á bönkum og fjármálastofnunum. Grunnurinn er sá að fólk verði að setja fjármuni inn í banka. Ef enginn setti fjármuni inn í banka yrðu engin útlán, eins og hv. þm. Pétur Blöndal minntist á í umræðunni áðan. Til þess að það sé tryggt hafa stjórnvöld, oft á alþjóðlegum vettvangi, t.d. á evrópskum vettvangi, komið upp innstæðutryggingarsjóðum – eða réttara sagt krafið hvert aðildarríki, í þessu tilfelli Evrópska efnahagssvæðisins, um það að setja upp innstæðutryggingarsjóð.

Virðulegi forseti. Stóra einstaka málið er að öll þessi hugmynd, öll þau reglugerðakerfi sem við og aðrar þjóðir erum með, þarfnast endurskoðunar. Þetta gekk einfaldlega ekki upp. Það að bankar skyldu hrynja í eins miklum mæli og raun ber vitni segir okkur að kerfið sem byggt var upp virkaði ekki. Núverandi seðlabankastjóri, sem þekkir þessi mál mjög vel, fór nákvæmlega yfir þetta á fundi hv. viðskiptanefndar. Hann sagði: Það eru allar þjóðir í sömu sporum og við Íslendingar, að finna reglur sem koma í veg fyrir það sem gerðist, vegna þess að það sem gerðist átti ekki að geta gerst. Hann nefndi líka að evrópsku bankarnir hefðu farið sömu leið og þeir íslensku ef ekki hefðu komið til fjármunir, ekki frá evrópska seðlabankanum heldur þeim bandaríska. Bandaríski seðlabankinn setti gríðarlega fjármuni inn í evrópska seðlabankann sem útdeildi þeim t.d. til Hollendinga, Breta og annarra þjóða og kom þar af leiðandi í veg fyrir að bankar þar færu sömu leið og hinir íslensku.

Nú er það ekki þannig, virðulegi forseti, að þessi lönd hafi verið alveg ósnortin og eina inngripið hafi verið inngrip bandaríska seðlabankans. Því fer víðs fjarri. Við þekkjum þjóðnýtingu eða inngrip út af Fortis. Við þekkjum þjóðnýtingu á Northern Rock, sem er flestum Íslendingum sem hafa áhuga á ensku knattspyrnunni vel kunnur vegna þess að sá banki var með auglýsingu framan á Newcastle-búningunum lengi vel, líka þegar hann hrundi. Hv. þm. Magnús Orri Schram, sem er mikill KR-ingur, heldur með Newcastle í ensku deildinni vegna þess að þeir eru í sömu búningum og KR.

Virðulegi forseti. Ég var nú bara aðeins að gantast í þessari alvarlegu umræðu því að ég sá framan í hv. þm. Magnús Orra Schram. En stóra einstaka verkefnið er það hvernig við getum lágmarkað áhættu skattgreiðenda. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að með þessu frumvarpi séum við búin að lágmarka áhættu skattgreiðenda, m.a. vegna þess að á sama tíma og við erum að gera þetta eru allir sammála um að það eigi eftir að taka á stóru þáttunum. Um það er ekki deilt í þessum þingsal. Deilan snýst um hvort það sé nóg að setja á nefnd sem eigi að skoða t.d. hugsanlega sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, stöðu og starfsumhverfi sparisjóðanna, hvort fjármálafyrirtækin megi eiga í vátryggingafélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtækjum, hvernig hægt sé að koma á dreifðri eignaraðild og hvort og hvernig eigi að skera í sundur starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Það eru allir sammála um að við eigum eftir að gera þetta. Hvert og eitt af þessum málum er risamál. Þetta eru ekki smámál heldur risamál.

Röksemdir meiri hlutans eru þær að það sé svo margt gott í þessu frumvarpi að við verðum að klára það núna en hitt geti beðið betri tíma. Röksemdir okkar hafa verið að það sé mjög margt gott í þessu frumvarpi — við höldum ekki öðru fram — en að við eigum núna að nota tækifærið og klára það sem eftir er. Það fer ekki frá okkur. Sérstaklega í ljósi þess að við getum sagt að stóri bleiki fíllinn í þingsalnum sé annað frumvarp um innstæðutryggingar en það er grunnurinn að öllu fjármálakerfinu. Ég vísaði áðan í Mark J. Flannery, sem segir sérstaklega, svo ég endurtaki orð hans, með leyfi forseta:

„Flestar reglur byggjast á þeirri trú að stjórnvöld muni ekki leyfa bönkum sínum að falla og gera innlánseigendum að bera tapið.“

Þetta kallar hann „ríkisábyrgð“. Ef meiri hlutinn nær fram vilja sínum munum við klára frumvarp um innstæðutryggingar þar sem við göngum lengra í að vernda innlán en allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Með því setjum við ríkisábyrgð, ekki bara upp á 20.000 evrur sem nú er gert ráð fyrir í gildandi lögum sem byggja á tilskipun Evrópusambandsins frá 1994. Nei, menn ætla að hækka hana upp í 100.000 evrur og loka deildinni sem er núna í íslenska innstæðutryggingarsjóðnum. Sú deild er galtóm með gríðarlegar skuldbindingar í tengslum við Icesave. Ef við lokum henni, virðulegi forseti, þýðir það að þá eru bara skuldir eftir en engar inngreiðslur. Ef við opnum nýja deild með þessum miklu skuldbindingum ábyrgjumst við 100.000 evrur á hvern reikning, sem eru um 16 millj. íslenskra króna, og búum til gríðarlega miklar skuldbindingar fyrir skattgreiðendur um ókomna tíð. Ef illa færi fyrir einum af þremur stærstu viðskiptabönkunum á næstu 100 árum, svo við gætum sanngirni, myndum við sleppa ef ekkert annað gerðist en ef það gerðist á næstu 10, 20, 30, 40 árum hefðum við búið til nýtt vandamál sambærilegt Icesave-vandamálinu okkar í dag.

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég dreg þetta sérstaklega fram er að þetta er stóra einstaka málið. Við getum farið í einstaka þætti málsins og það er nauðsynlegt. Ég vil aftur ítreka að í hv. viðskiptanefnd hefur ágætlega verið farið yfir einstök mál, ég er ekki að gera lítið úr því. Það hefur verið komið til móts við margar af þeim athugasemdum sem við sjálfstæðismenn gerðum. T.d. er hingað komin breytingartillaga okkar um að fjármálafyrirtæki verði að selja fyrirtæki sem þau taka yfir innan 12 mánaða. Einnig er verið að taka inn frumvarp sem ég er fyrsti flutningsmaður að og hefur í för með sér að fyrirtæki í eigu fjármálastofnana þurfi að vera með sömu upplýsingaskyldu og fyrirtæki í Verðbréfaþinginu eða Kauphöllinni. Þetta er allt gott og blessað og það er tekið á mjög mörgu í þessu frumvarpi en við eigum eftir stóru málin. Við ætlum að ganga frá lögum um fjármálafyrirtæki en við getum ekki gert það með góðri samvisku nema að taka á stærstu málunum. Það er algjörlega útilokað.

Ég lít svo á að öll sú vinna sem við höfum unnið í hv. viðskiptanefnd sé fjárfesting í þekkingu. Við höfum safnað saman gríðarlega miklum upplýsingum frá umsagnaraðilum og sérfræðingum sem geta nýst okkur í því verkefni sem við þurfum að ljúka. Ég hef áhyggjur af því, virðulegi forseti, núna í sól og sumaryl á þessum fallega degi, að næstu daga verði þetta nákvæmlega eins og verið hefur á síðustu dögum undanfarinna þinga. Allir eru orðnir frekar slæptir en ég hef áhyggjur af því að við munum fara yfir málin fram á nótt, gera það aftur á morgun og meiri hlutinn muni hamast við að reyna að ýta ýmsum málum í gegn áður en þinghlé hefst í næstu viku. Það er engin trygging fyrir því að við tökum upp þessi mál og klárum þau. Það væri besta lausnin. Það versta sem gæti gerst er að við gerðum veruleg mistök á síðustu metrunum, sem við mundum ekki bara sjá eftir heldur gætu þau verið dýrkeypt fyrir íslenska þjóð. Í ofanálag er jafnlíklegt að við ætlum að fara í öll þau fjölmörgu verkefni sem eru á þessum vettvangi og nefndir séu í gangi á vegum framkvæmdarvaldsins sem muni einhvern tímann koma með sínar niðurstöður en að við höfum ekki tök á málinu. Einn daginn sitjum við uppi með að slys hafi orðið á einhverjum sviðum sem við tókum ekki á. Þá koma kannski aðrar rannsóknarnefndir eða aðrar úttektir sem segja: Þarna gerðuð þið mistök, þið lærðuð ekki af rannsóknarskýrslu Alþingis og öllum þeim upplýsingum sem þar eru.

Þetta eru mínar áhyggjur, virðulegi forseti. Ég er búinn að ræða einstaka þætti mjög ítarlega og get alveg farið betur í þá og útskýrt þau sjónarmið en það er stóra myndin sem ég hef áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af því að þetta sé bara bútasaumur, að við séum bara að ganga frá litlum hluta en látum stóra vandamálið, stóru verkefnin, liggja á milli hluta. Það er ekki forsvaranlegt miðað við það sem á undan er gengið og við (Forseti hringir.) getum ekki byggt hér upp trúverðugan fjármálamarkað án þess að taka á stóru málunum.