138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og vinnu innan viðskiptanefndar. Mig langar til að vekja athygli á tveimur þáttum. Í fyrsta lagi ræddi þingmaðurinn nokkuð um heildarsvið bankakerfisins með tilliti til innstæðutryggingarfrumvarpsins sem við höfum rætt nokkuð á vettvangi nefndarinnar. Ég setti hugmynd á flot í umræðum á Alþingi í gær um svokallaðan bankaskatt því að ljóst er að við höfum á undanförnum árum einkavætt bankana í góðri trú og þar með kannski einkavætt hagnað þeirra en lent svo í því að ríkisvæða tap þeirra og sitjum sökum þess uppi með háan reikning. Hvernig líst hv. þingmanni á hugmynd um sérstaka skattlagningu á bankastofnanir til að þær leggi kannski sitt af mörkum vegna þeirrar erfiðu stöðu í ríkisfjármálum sem við búum við? Það var fyrri punkturinn.

Seinni punkturinn er eiginlega andsvar við fyrri ræðu hv. þingmanns, sem ég átti ekki tök á að vera við en þá fjallaði hann nokkuð um stöðu endurskoðenda í frumvarpi um fjármálafyrirtæki. Vissulega var þetta flókið úrlausnar hjá nefndinni enda toguðust á gagnstæð sjónarmið við breytingar á 19. gr. laganna um að endurskoðandi endurskoðunarfélags skuli ekki gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtæki.

Það er ljóst að hugsun nefndarinnar er fyrst og fremst sú að endurskoðandi sinni ekki öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtæki, t.d. veiti ekki ráðgjöf um rekstrar- eða fjárhagsleg atriði, skattaleg málefni eða hafi hönd í bagga með öðrum ákvörðunum fyrirtækisins sem geta haft áhrif á afkomu þess. Ég held að mikilvægt sé að þessi punktur sé sleginn vegna þess að mín skoðun er sú að með slíkri ráðgjöf væri endurskoðandi í raun að endurskoða þau atriði sem byggjast á ráðgjöf frá honum og því eigum við að reyna að hverfa frá. Hins vegar er ekki ætlunin að koma í veg fyrir að endurskoðandi geti sinnt t.d. áritun árshlutareikninga eða einhvers konar staðfestingu á þeim gögnum sem byggjast á ársreikningi fyrirtækisins og vinnu hans.