138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get bara talað fyrir sjálfan mig. Ég tek undir það að í þessu máli eigum við gríðarlegra hagsmuna að gæta. Ég sannfærðist um það á fundi nefndarinnar þegar þeir gestir sem ég tiltók áðan komu á okkar fund og útskýrðu afstöðu sína til þessarar breytingartillögu, að hún væri nauðsynleg, og ég tók undir þau rök. Það þýðir ekki að ég sé þeirrar skoðunar að það sé endilega skynsamlegt að fara með allt þetta mál í gegn. Það er ekkert því til fyrirstöðu að taka þetta ákvæði út úr frumvarpinu og samþykkja það og vinna hin atriðin betur.