138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:24]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er að vissu leyti sorglegt um að litast í hesthúsahverfum höfuðborgarsvæðisins, varla sála á ferli og eins og um einhvers konar draugaborgir sé að ræða. Íþrótta- og tómstundastarf þúsunda manna liggur niðri, svo ég tali ekki um þá fjölmörgu sem hafa atvinnu af starfi í kringum hesta. Einhvern veginn er það svo að maður hugsar til þess að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Námskeið, mótahald, sleppitúrar, ferðalög og landsmót, allt er fyrir bí að þessu sinni. En við núverandi áföll hefur okkur öllum orðið svo greinilega ljóst hversu umfangsmikil starfsemi tengist hestamennskunni og hversu langt hestamennskan teygir anga sína. Þessi staða mála hlýtur að velta upp fjölmörgum spurningum, eins og fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum við þessa umræðu, svo sem hversu vel við erum við í stakk búin til að bregðast við hestapestum yfirleitt.

Ég held að sú staða sem upp er komin hafi einnig sýnt okkur um leið hversu miklu máli íslenski hesturinn skiptir fyrir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar, en það er mat mitt að við höfum hvergi nærri fullnýtt alla þá möguleika sem íslenski hesturinn getur gefið okkur til verðmætasköpunar.

Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum við umræðuna að mikilvægt er að efla rannsóknir á því hvað gerðist, hvers vegna og hvernig við getum komið í veg fyrir að þetta gerist áfram og aftur. Einnig verður að skoða möguleika á markaðsátaki því að margfeldisáhrif slíkrar fjárfestingar eru mikil — við sjáum það mjög vel á því markaðsátaki sem nú stendur yfir fyrir ferðamennskuna heilt yfir — og um leið að koma með einhverjum hætti til móts við þá aðila sem hugðust halda landsmót í Skagafirði um næstu mánaðamót, svo viðkomandi geti brúað bilið til næsta landsmóts a.m.k.